145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.

408. mál
[15:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Í tengslum við þær athugasemdir sem féllu hér vil ég bara segja að ég held að það sé mjög mikilvægt að við tölum ekki niður þau stuðningskerfi sem við erum með í samfélaginu. Það er mjög fagleg og góð þjónusta sem sveitarfélögin veita á grundvelli laga um félagsþjónustu og vinna að því að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa í samræmi við lög og aðstæður hverju sinni. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum skrefið til baka gagnvart þeim neikvæðu viðhorfum sem hafa verið í gegnum tíðina til þeirrar aðstoðar sem sveitarfélög hafa verið að veita.

Almannatryggingakerfið er, eins og ég nefndi, aðeins einn hluti af þeim kerfum sem við erum með og höfum búið til sem mynda íslenska velferðarkerfið. Það sem hv. þingmaður spurði um var eitt af því sem nefnd á mínum vegum, sem vinnur að endurskoðun almannatryggingakerfisins, skoðaði. Fjölmargar góðar tillögur liggja nú fyrir og er að myndast samstaða um varðandi breytingar á almannatryggingakerfinu til hagsbóta fyrir ýmsa hópa.

Ég tel að það hljóti að vera mitt hlutverk, af því að ég hef falið stórum og öflugum hópi að koma með tillögur til þess að huga að bættu kerfi, að vinna með þær tillögur eins vel og ég mögulega get innan þess ramma sem Alþingi veitir mér. Það mun ég gera.