145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Tugir þúsunda Íslendinga hafa nú skrifað undir áskorun til Alþingis um endurreisn heilbrigðiskerfisins með kröfu um að 11% af vergri landsframleiðslu renni framvegis til heilbrigðismála. Þessi hópur hefur sett nafn sitt við þá fullyrðingu að íslensk stjórnvöld hafi vannært heilbrigðiskerfið að því marki að það sé þess ekki lengur megnugt að sinna hlutverki sínu.

Þetta er stór fullyrðing en hún er því miður sönn. Ástæða þess að hægt er að taka þannig til orða er sú að nú er komið góðæri á Íslandi. Við höfum svigrúm til að gera betur, með batnandi efnahag, en við gerðum til dæmis eftir hrun. Einmitt þess vegna er stjórnvöldum lögð ríkari skylda á herðar en nokkru sinni áður. Fyrst það tókst í tíð síðustu ríkisstjórnar að verjast falli íslenska velferðarkerfisins sem var ekki sjálfgefið að tækist er enn ríkari skylda á herðum núverandi stjórnvalda að treysta þessa samfélagsstoð í sessi, ekki bara að viðhalda því sem er heldur byggja upp og efla.

Í því ljósi er nöturlegt að horfa til vannýttra tekjustofna, lækkaðs veiðileyfagjalds og afnáms auðlindaskatts, á sama tíma og vantar sárlega jafnvel allt að 200 milljarða kr. inn í heilbrigðiskerfið. Það er nöturlegt á góðæristímum að heilbrigðiskerfi okkar skuli fá þá einkunn að það fylgi ekki framþróun í læknisfræði, haldi ekki í við tækni og tækjabúnað, haldi ekki í við lyfjaþróun; með öðrum orðum að það standi ekki undir ásættanlegu þjónustustigi í nútímasamfélagi. Þess í stað gilda sjúklingakvótar, fólk fær jafnvel ekki lífsbjargandi lyf ef það greinist eftir að kvótinn hefur verið uppfylltur og bíður sárþjáð (Forseti hringir.) árum saman eftir mikilvægum aðgerðum. Það er óásættanlegt ástand sem stjórnvöld verða að bregðast við. Ég legg til að ríkisstjórnin verði kölluð hingað með tímasetta áætlun um viðbragð við þessu ákalli þjóðarinnar. Þjóðin bíður.


Efnisorð er vísa í ræðuna