145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég harma það að við þurfum að taka þetta mál aftur til umfjöllunar hér í þinginu, en ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Mig langar að spyrja af hverju ekki sé litið til þess að lengja aftur atvinnuleysistímabilið því að þar eru heimildir til að krefjast virkrar atvinnuleitar. Ríkisstjórnin ákvað, þrátt fyrir lækkandi atvinnuleysi, að fara niður í tvö og hálft ár, sem lögin kváðu á um fyrir hrun, áður en það var hækkað í fjögur ár og síðan lækkað í þrjú ár aftur. Mig langar að spyrja af hverju ekki er byrjað á því til að við séum ekki að hrófla við þessu lægsta öryggisneti samfélagsins.

Þá langar mig að spyrja af hverju tölfræðigreining fylgi ekki með frumvarpinu. Fólki á fjárhagsaðstoð fer fækkandi enda eru bein tengsl á milli atvinnuleysis og þarfar fólks fyrir fjárhagsaðstoð. Ég hefði viljað sá miklu betri greiningu þannig að við gætum gert okkur grein fyrir því hvers konar staða er í þessum málum, það er þá eitthvað sem við í nefndinni þurfum enn eina ferðina að afla okkur upplýsinga um.

Mig langaði líka til að spyrja hvort fyrir liggi lögfræðiúttekt á því hvort þetta stangist á við ákvæði stjórnarskrár.

Að lokum langar mig til að spyrja. Þegar taka á tillit til aðstæðna barna, greiðslna sem þau varða, þá spyr ég til dæmis um einstæða móður með barn á framfæri sem fær skerðingu á grunnframfærslu; að sjálfsögðu er þá verið að skerða heimili þar sem barn er til staðar. Er þá ekki ætlunin að þetta nái til fólks með börn, eða á þetta að ná til barnafjölskyldna (Forseti hringir.) fyrir utan einhverja greiðsluflokka? Ég biðst velvirðingar á mörgum spurningum, en mér liggur mikið á hjarta.