145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

ný innflytjendalöggjöf í Danmörku.

[10:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Nú bregður svo við að fyrirspurnin á ekki við ráðherrann í embætti félags- og húsnæðismálaráðherra heldur sem samstarfsráðherra Norðurlanda. Ég held að það sé nú ekki oft sem samstarfsráðherra Norðurlanda sé spurður spurninga í fyrirspurnatíma.

Ég tel ærna ástæðu til þess að eiga orðastað við hæstv. ráðherra sem svari í krafti þessa embættis að þessu sinni út af nýrri löggjöf um innflytjendamál í Danmörku. Það er vægast sagt umdeild löggjöf. Ég mundi segja að hún væri forkastanleg út frá alls konar sjónarmiðum um mannréttindi og mannúð sem við viljum tileinka okkur, ekki síst sem Norðurlandaþjóð. Löggjöfin gerir ráð fyrir því að hægt sé að gera eigur flóttafólks og hælisleitenda upptækar og í henni eru alls konar önnur ákvæði sem frá mínum sjónarhóli séð og margra annarra eru mjög ómanneskjuleg. Mér finnst vegið að ákveðnum grunngildum Norðurlandasamstarfs með henni.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða augum hún líti þessa löggjöf Dana. Auðvitað virðum við sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðþinga til þess að setja sín eigin lög en við Norðurlandaþjóðirnar höfum hins vegar skilgreint okkur margoft sem eina heild út frá gildum og viðhorfum til mannréttinda. Við höfum þess vegna þetta embætti, samstarfsráðherra Norðurlandanna. Samstarfsráðherrarnir koma saman og ráða ráðum sínum og við höfum Norðurlandasamstarf í formi Norðurlandaráðs.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi komið á framfæri mótmælum við þessari löggjöf Dana og ef hún hefur ekki gert það hvort hún hyggist gera það og hvort hún telji að það sé rétt mat hjá mér að vegið sé að ákveðnum grunngildum sem hafa hingað til sameinað Norðurlandaþjóðirnar. Þar er ég að tala um viðhorf til mannréttinda og ákveðinnar mannúðar sem við reynum að tileinka okkur.