145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

ný innflytjendalöggjöf í Danmörku.

[10:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra komi á framfæri skýrum mótmælum Íslands og vonandi ríkisstjórnarinnar sem hún situr í við þessari hugsun.

Mér finnst Norðurlandasamstarfið einna helst byggjast á því að við deilum gildum og við deilum viðhorfi og áherslu á mannréttindi í þessu samstarfi. Við erum lýðræðisþjóðir. Þetta eru opin þjóðfélög. Mér finnst það að gera eigur flóttafólks upptækar ganga algjörlega þvert á þessi gildi og eins það sem hæstv. ráðherra nefnir um fjölskylduákvæðin, miklu stífari ákvæði um fjölskyldusameiningar.

Ég get sagt það hér að okkar fulltrúi í Norðurlandasamstarfi, hv. þm. Róbert Marshall, hefur komið á framfæri skýrri afstöðu Bjartrar framtíðar (Forseti hringir.) gegn þessari löggjöf í samstarfi við flokkana í Norðurlandaráði. Þar eru tveir flokkar sem eru systurflokkar okkar, það eru nú sömu systurflokkar og eru systurflokkar Framsóknarflokksins. Venstre styður þetta en Radikale Venstre hefur staðið í lappirnar.