145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Er hæstv. ráðherra að segja að Félagsstofnun stúdenta misskilji bara frumvarpið? Þá hef ég af því áhyggjur vegna þess að eins og ráðherrann segir er Félagsstofnun stúdenta meðal þess fáa sem hefur virkað í félagslegu húsnæði á undanförnum árum. Hún hefur búið til ný úrræði og byggt af miklum myndarskap. Ég spyr ráðherrann: Er þetta nýja fyrirkomulag verra fyrir stúdentaíbúðirnar en það sem fyrir var?

Þá vil ég spyrja ráðherrann um Félagsbústaði. Er það ekki á dagskrá hjá ráðherranum, ef ekki verða veittir stofnstyrkir á þessu ári, að beita sér fyrir því að framlög fáist til þess að niðurgreiða vexti eins og var í hinu eldra kerfi þannig að ekki skapist aukinn vandi á yfirstandandi ári vegna þess að hvorugt kerfanna virki, hvorki hið gamla sem sé þá hætt né sé hið nýja tekið að virka? Nógur er vandinn samt.