145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Mig langar til þess að blanda mér rétt aðeins í þessa umræðu vegna þess að ég hef verið þátttakandi í norrænu samstarfi í þrjú ár, sem sagt það sem af er liðið þessu kjörtímabili. Það hefur um margt verið mjög ánægjulegt. Ég starfa innan hinnar svokölluðu umhverfisnefndar Norðurlandaráðs sem núna heitir sjálfbærninefndin. Það er mjög ánægjulegt samstarf sem þar á sér stað. Þar hef ég verið talsmaður ákveðins málaflokks sem tengist mjög því sem er að gerast í okkar samfélagi, þ.e. um sjálfbærnivottun ferðamannastaða og sameiginlegri viðleitni okkar í þessari nefnd til þess að reyna að koma á fót slíku kerfi þar sem Norðurlöndin mundu, á svipaðan hátt og með umhverfismerkið Svaninn sem margir þekkja, votta að verið væri að umgangast ferðamannastaði með sjálfbærum hætti.

Síðan verður ekki hjá því komist að minnast á að innan okkar samstarfs eru málefni eins og t.d. umhverfismál og núna flóttamannavandinn sem sýna okkur hvernig ákveðnir málaflokkar eru ekki á færi þjóðríkjanna að ráða við, þ.e. þau mál eru stærri og teygja sig yfir landamæri og þjóðríkin eru í vandræðum með að leysa þau ein og sér og þurfa á samstarfi að halda. Ég held að ekkert sé eins áþreifanlegt í heimspólitíkinni í dag og sú staðreynd hvernig flóttamannavandinn hefur áhrif á samstarf Norðurlandanna sem hefur einmitt verið byggt upp með mikilli áherslu á frelsi og frjálsu flæði á milli landamæra þar sem er ekkert landamæraeftirlit. Nú er byrjað að reisa þar ákveðna múra af því að löndin leysa ekki þessi mál í sameiningu, heldur hvert í sínu lagi og það er áhyggjuefni.

Það er meðal þess sem ég ræddi á mínum vettvangi í miðjuflokkahópi Norðurlandaráðs í janúar, í byrjun þessarar viku, vegna þess að nálgun á þessi mál skiptist að mörgu leyti í tvo hópa, í þá sem vilja leysa vandamálin með því að byggja múra og láta þá sem eru fyrir utan múrana hugsa um sig sjálfa, og þá sem nálgast þessi verkefni þannig að þeir gera sér grein fyrir því að þetta eru sameiginleg viðfangsefni heimsbyggðarinnar allrar. Þá á ég við stríðsrekstur sem leiðir til flóttamannavanda og umhverfisvandann sem blasir við allri heimsbyggðinni. Það er í mínum huga alveg ljóst að þjóðirnar verða að leysa þetta í sameiningu.

Það er mjög dýrmætt að geta átt vettvang eins og Norðurlandaráð þar sem maður getur komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Því miður hefur stjórnmálaþróunin orðið þannig að stjórnmálaflokkar á borð við Venstre og danska jafnaðarmenn hafa tekið upp stefnumál sem maður hefði áður haldið að tilheyrðu bara Danska þjóðarflokknum. Má þar nefna þessa ákvörðun að leita í veskjum og vösum flóttamanna og kanna stöðu þeirra áður en þeim er veitt aðstoð sem mér finnst mjög ógeðfelld og ég kom þeirri skoðun rækilega á framfæri á samstarfsvettvangi mínum í Norðurlandaráði í vikunni. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Ég vil líka minnast á það sem er mjög dýrmætt í þessu samstarfi, það hvernig þessi vettvangur nýttist þeim þingmönnum sem komu sem fulltrúar þjóðþinga sinna á loftslagsráðstefnuna í París. Það var mjög ánægjulegt að upplifa það að norrænu þingmannasendinefndirnar voru með sameiginlega miðstöð í sérstökum norrænum skála á ráðstefnusvæðinu þar sem voru atburðir, kynningar, fyrirlestrar og fræðandi erindi frá þessum löndum öllum. Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í því. Hlutverk þingmanna í samningaviðræðum um loftslagsmál er ekki stórt meðan á viðræðunum sjálfum stendur, en það tekur auðvitað við þegar aðdragandi aðgerða og þegar aðdragandi gildistöku þeirra samninga sem þarna náðust fer í hönd. Á þessum vettvangi hafa menn getað stillt sig saman og komið með sameiginlegar hugmyndir. Það er auðvitað mjög gleðilegt.

Ég vil í lok máls míns geta þess að ákveðið var á fundi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs í byrjun þessarar viku að fara ekki til Kalíníngrad, sem var einn af þeim valmöguleikum sem voru í stöðunni, heldur að ræða um málefni hafsins, um fiskstofna, um súrnun sjávar, um loftslagsmál og líka stöðuna gagnvart Rússlandi, á sérstökum sumarfundi í Vestmannaeyjum sem ég veit að verður mjög ánægjulegur fundur. Það verður enginn svikinn af því að funda í Vestmannaeyjum. Það var mjög gleðilegt að við fulltrúar Íslands í nefndinni, ég og hv. þm. Elín Hirst, skyldum ná að sannfæra samferðamenn og samstarfsmenn okkar í nefndinni um að koma hingað til Íslands og funda í sumar.