145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp, má segja, í seríu af fyrirspurnum en ég hef áður rætt við hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra um þetta sama mál sem sneri þá að skýrslu sem gerð var á hennar vegum um þetta efni, þ.e. ofbeldi í víðara samhengi, gegn fötluðum konum. Þar komu fram býsna sláandi og óþægilegar niðurstöður en þær drógu líka fram mikilvægar upplýsingar fyrir okkur sem við getum síðan unnið með í framhaldinu til að standa betur vörð um rétt og heilsu og lífsgæði þessara hópa.

Ég lagði líka fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um fjölda fatlaðra sem hefðu lent í kynferðisbrotum og farið í gegnum dómskerfið en í því skriflega svari, og þakka ég fyrir það, kom fram að ekki hefði verið haldið sérstaklega utan um þessa hópa miðlægt og þess vegna lágu ekki fyrir upplýsingar um fjölda eða umfang slíkra brota gegn þessum hópi. Þá er í raun búið að svara fyrsta lið fyrirspurnarinnar en mér finnst skipta máli að vel sé haldið utan um þetta. Í því svari kom fram að frá og með 2. desember síðastliðnum eru kynferðisbrot gegn fötluðu fólki skráð sérstaklega. Er það vel og ber að fagna því.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort til greina komi að hefja sérstaka rannsókn á umfangi slíkra brota og þá aftur í tímann. Fjölmargir fatlaðir einstaklingar hafa stigið fram og lýst því hvers lags ofbeldi þeir hafi orðið fyrir út af þeirri stöðu sem þau eru í sem fatlaðir einstaklingar í okkar samfélagi. Það er skylda okkar að standa vörð um þá hópa sem oft geta ekki einu sinni komið til skila þeim brotum sem þau hafa orðið fyrir. Við verðum að halda vel utan um þetta fólk. Þegar kynferðisbrot eiga sér stað verður að taka vel á því og þá verður að vera sérstök þekking innan kerfisins á þeim málum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort til greina komi að setja saman sérstakt teymi til að halda utan um slík mál. Er slíkt teymi ef til vill í undirbúningi í ráðuneyti hennar?