145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[16:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála því hjá hv. þingmanni að mikilvægi upplýsinga verður seint ofmetið í hvaða málaflokkum sem er. Svo sannarlega á það við þarna.

Við erum að taka tiltekin skref og þurfum að sjálfsögðu að taka frekari skref. Ég hjó líka eftir því sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði um þær upplýsingar sem hafa verið að berast okkur undanfarnar vikur sérstaklega því að þetta hefur nokkuð verið til umræðu í þinginu í formi fyrirspurna til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og við höfum komið með lagafrumvörp eins og ég nefndi áðan.

Við bíðum eftir niðurstöðu stýrihópsins. Það var áætlun sem var hugsuð til fjögurra ára. Það er hins vegar forvitnilegt að vita í hvaða átt sú vinna fer. Það getur verið áhugavert fyrir þingið að eiga þá umræðu. Mér finnst alveg koma til greina að skoða með hvaða hætti, með skýrslu eða öðruvísi, megi ná utan um þá ólíku þætti sem þó eru undir þessum sama hatti. Við erum að tala um réttindamál fatlaðs fólks og ég vil líka nefna þá hrikalega viðkvæmu málaflokka þegar við erum að tala um ofbeldi í nánum samböndum.

Ég tek með mér héðan þessa umræðu sem mér hefur þótt góð og uppbyggileg. Stundum vill maður geta gert hlutina hraðar en það er líka mikilvægt að það sem við gerum gagnist og sé gert rétt.