145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Votlendisdagurinn er í dag. Dagurinn minnir okkur á hin slæmu loftslagsáhrif sem framræsla mýra hefur haft, en um leið tækifærið sem það gefur okkur til að leggja gott til loftslagsmála með því að moka aftur ofan í skurðina vegna þess að mýrarnar munu vera mikil kista til að geyma koltvísýring í. Framræsluskurðir hér á landi munu vera um 35 þús. kílómetrar, sem er sex sinnum strandlengja Íslands og nærri tvisvar sinnum þvermál jarðar — fyrir þá sem hafa gaman af slíkum samanburði.

Ég er þó ekki hér til að flytja skemmtifróðleik af þessu tagi. Ég held að þeir eða þau sem stóðu fyrir framræslu mýranna hafi ekki haft hugmynd um hin slæmu loftslagsáhrif sem fylgdu þeim. Framræslan var fyrsta skrefið í að rækta landið, en 80% af skurðunum enduðu með því að vera bara skurðir og til ógagns. Einungis 14% hafa nú þegar nýst til þarfari verka og er ætlað að ekki verði nýtt meira en 20%. Ekki síst vil ég vekja athygli á því að bændur fengu styrki til að grafa þessa skurði. Mér virðast skurðirnir þvers og kruss um landið skólabókardæmi um hversu nauðsynlegt er að vanda til verka þegar styrkjakerfi eru smíðuð. Huga þarf að afleiðingunum, ekki bara aðalmarkmiðinu, heldur ekki síður hliðaráhrifum sem geta orðið alvarlegri en nokkurn óraði fyrir í upphafi.


Efnisorð er vísa í ræðuna