145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni, formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, fyrir ágæta yfirferð yfir skýrslu um Evrópuráðsþingið og aðkomu okkar íslenskra þingmanna að því. Mér finnst líka ástæða til að færa nefndarritara, Vilborgu Guðjónsdóttur, kærar þakkir fyrir hennar góða framlag til vinnu nefndarinnar og aðstoð við okkur þingmennina.

Eins og fram kom í máli formanns Íslandsdeildarinnar voru helstu mál, sem komu til umfjöllunar á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2015, málefni flóttamanna við Miðjarðarhafið og síðan upp eftir allri Evrópu, baráttan gegn hryðjuverkum, og eins og hún gat um í ræðu sinni var einnig mikið fjallað um uppljóstrara og þá einnig eftirlit með leyniþjónustum og löggæslu, og síðan var það náttúrlega Úkraínudeilan sem setti svip á umræðu á árinu en svo hefur verið allar götur frá því Rússar voru sviptir rétti sínum innan Evrópuráðsins til að taka þátt í störfum sjálfs þingsins. Ég held að það hafi verið mjög mikil mistök enda greiddi ég atkvæði gegn þessum ákvörðunum að minnsta kosti í tvígang eða alltaf þegar þetta kom til umfjöllunar.

Evrópuráðið missti sig því miður í að gleyma hvað það er. Evrópuráðið er varðstöðustofnun um mannréttindi og lýðræði fyrst og fremst. Evrópuráðið er stofnun Pussy Riot gegn rússneska ríkinu. Evrópuráðið er stofnun þeirra sem ríkin 47 brjóta gegn. Þegar við drögum úr réttindum Rússlands eða annarra ríkja eða víkjum þeim brott úr Evrópuráðinu erum við að svipta þetta fólk réttinum og aðkomu að því að sækja rétt sinn fyrir dómstól Evrópuráðsins og fyrir stofnunum Evrópuráðsins. Þetta vill stundum gleymast.

Við höfum annars konar ríkjablokkir. Við höfum Evrópusambandið og við höfum NATO sem glíma við verkefnin á öðrum forsendum en Evrópuráðið gerir og á að gera. En Evrópuráðið missti sig aftur og ítrekað í þetta hlutverk, tók afstöðu með stjórnvöldum í Úkraínu og iðulega gegn mannréttindum, til dæmis var borin upp tillaga í Evrópuráðinu og á þingi Evrópuráðsins og samþykkt um að Úkraína mætti ekki undir neinum kringumstæðum verða sambandsríki. Við í flokkahópi vinstri flokkanna höfðum lagt til að við létum þetta liggja milli hluta. Það væri ákvörðunarefni í Úkraínu og úrlausnarefni þar á bæ að ráða slíkum ráðum en ekki okkar. Okkar tillaga var felld vegna þess að tekin var afstaða með þeim sem héldu um stjórnartaumana í Kænugarði. Þetta er dæmi um hvernig Evrópuráðið missti sig í þessum efnum.

Síðan er á það að líta að stjórnvöld í Úkraínu komust á valdastólinn með því að ýta lýðræðislega kjörnum forseta til hliðar og hrifsa völdin úr hans hendi. Það vita allir að fingraför Atlantshafsbandalagsins, NATO, Bandaríkjanna, og því miður Evrópusambandsins einnig, sem hefur verið gagnrýnt fyrir að gerast of utanríkispólitískt í þessu máli, var einnig að merkja í því. Síðan vitum við, sem fylgdumst með kosningum í Úkraínu, hvernig þrengt var að lýðræðinu. Til dæmis voru fulltrúar kommúnista ofsóttir, skildir eftir í ruslatunnum. Það eru nokkuð skýr skilaboð, ekki satt? Þegar ráðist er á frambjóðendur flokks og þeim hent í ruslatunnur. Hvern langar til að bjóða sig fram fyrir slíkan flokk? Enda er búið að banna hann núna. Það var gert með því að banna merki flokksins og hugmyndafræði. Að sjálfsögðu liggur í hlutarins eðli að þeir sem bera þá hugmyndafræði eru úr sögunni. Nú er þetta fyrir dómstólum, reyndar, í Kænugarði.

Þetta er það sama og við höfum séð í ýmsum öðrum ríkjum, svo að dæmi sé tekið í Aserbaídsjan. Ég fylgdist með kosningum þar í byrjun nóvember og gat ekki skrifað undir að fullu afstöðu eftirlitsnefndarinnar vegna þess að mér þótti vanta í álitsgerðina að gagnrýna rammann. Það er eitt að kosningar gangi liðlega fyrir sig og talið sé heiðarlega upp úr kössunum o.s.frv., sem við teljum að hafi átt sér stað í Úkraínu, þegar við fylgdumst með kosningunum þar. En spurningin er: Hvernig er farið með þá sem halda uppi stjórnmálaumræðu í óþökk stjórnvalda, eru gagnrýnir? Sitja þeir í fangelsi eins og er í Aserbaídsjan? Er þrengt að fjölmiðlum? Þetta verðum við að skoða, þetta samhengi hlutanna verðum við að skoða áður en við stimplum kosningar lýðræðislega framkvæmdar. Að sjálfsögðu þurfum við að gera það. Og þetta er Evrópuráðið, það snýst um þetta. Að heyra fulltrúa breska heimsveldisins — það rauk enn upp af þeim eftir innrásina í Írak 2003, en tilfinningahitinn og ofstækið var óþrjótandi þegar kom að því að fordæma Rússa fyrir aðkomu þeirra að Úkraínu. Það dæmi er náttúrlega mjög margslungið.

Auðvitað viljum við helst spyrja hvað fólkið vilji gera. Hvað vill fólkið á Krímskaga gera? Formaður nefndarinnar kom ágætlega að því máli í framsögu sinni. Þetta væri margslungið mál, þar á meðal yrði að horfa til vilja fólksins. Auðvitað verðum við að virða þann vilja. Ég kom með tillögu um það á Evrópuráðsþinginu að við settum það inn í ályktun þingsins að auk þess að virða landamæri ríkja bæri að horfa til lýðræðislegs vilja. Það var fellt. Evrópuráðsþingið felldi tillögu um að við virtum lýðræðið. Það þótti mér mjög miður. Við sem sækjum þessi þing eigum fyrst og fremst að horfa til mannréttindanna. En þessi heimur er náttúrlega flókinn.

Þegar við segjum: Það á að virða lýðræðislegan vilja, á það gilda í Nagorno-Karabakh eins og formaður vék að? Í þeirri deilu? Sem tilheyrði Aserbaídsjan og Armenar tóku á sitt vald? Hinn lýðræðislegi vilji er óvefengjanlega armenskur, að vilja ekki tilheyra Aserbaídsjan, en engu að síður tilheyrði landið Aserbaídsjan. Og í alþjóðlegum skilningi er verið að brjóta þarna á Aserbaídsjan. Það sama kemur upp varðandi Krímskagann. Ef við tökum Kýpur. Tyrkir voru dreifðir um alla eyjuna á sínum tíma, þeir eru komnir núna á eitt tiltekið svæði. Á að virða lýðræðislegan vilja þar? Eða horfa til Kýpur heildstætt? Þetta er ekki einfalt mál. Þetta er flókið. Og ég er ekki að halda því fram að þetta sé einfalt.

En mér fannst einföldunin sem átti sér stað, og hefur átt sér stað, varðandi Rússland og Úkraínu með ólíkindum og mér þótti það mjög miður og lét það oft í ljós í umræðu á þinginu. Ég tel að Evrópuráðið sé vettvangur sem Íslendingar eigi að leggja mikla rækt við. Ég fagna því að ákvörðun hafi verið tekin um að endurreisa skrifstofu okkar í Strassborg. Við erum eina ríkið af 47 sem hefur ekki haft sendiherrastöðu þar. Það var eðlileg afleiðing hrunsins. Það var verið að draga saman á ýmsum sviðum. En það var tímabundin ákvörðun sem þar var tekin.

Um þessi mál öll gæti ég og vildi gjarnan hafa langt mál en við höfum skýrsluna. (Forseti hringir.) Mér finnst mikilvægt að henni sé komið vel á framfæri. Hún er á vef þingsins. Þar er að finna ýmsar upplýsingar. En síðan mega menn vita það að við tökum þátt í þessu starfi til að hafa áhrif á umræðuna og það get ég borið vitni um að við þingmennirnir sem höfum sótt þessa fundi höfum reynt að gera.