145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Ég held að ég mundi vilja ganga jafnvel aðeins lengra. Ég held að það sé mjög brýnt. Mér finnst til dæmis mjög furðulegt fyrirkomulag að einu sinni á ári sé fjallað um þá rosalega stóru málaflokka á þingi sem lúta að alþjóðastarfinu. Það væri mjög gaman og gagnlegt ef til að mynda utanríkisráðherra væri hér og tæki þátt í umræðunum með okkur, sér í lagi þegar kemur að beinum utanríkispólitískum málefnum sem utanríkisráðherra er oft andlit Íslands í umræðum um.

Ég ætla ekki að fara út í of tæknileg atriði um það hvernig við eigum að haga störfum okkar hérna en það er eitt sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um sem tengist því að við eigum alltaf að standa sem smáþjóð með öðrum smáþjóðum. Mig langar að spyrja hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort hann sé ekki sammála mér um að við ættum endilega að nýta okkur þá stöðu sem við erum í varðandi tvíhliða viðskiptasamning við Kína til að ræða þau mannréttindabrot sem eiga sér stað gagnvart tíbesku þjóðinni.