145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði áðan að ástæðan fyrir því að þingin almennt í Evrópu hefðu ekki fundið heppilegan farveg fyrir það efni og ályktanir og niðurstöður sem verða á alþjóðlegum ráðstefnum og þingum sem fulltrúar þeirra eiga sæti á væri sú að þingin væru að eðli til gamlar stofnanir. En alþjóðamálin hafa yfirskyggt allt annað eftir því sem verslun og viðskipti heimsins hafa samþæst meira og hagsmunirnir orðið meiri sem tengjast utanríkismálum. Þetta hefur ekki náð að aðlagast hvort öðru. Fyrir vikið er staðan eins og hv. þingmaður lýsti, við tökum einu sinni einn dag rosalegar umræður um utanríkismál og svo er það frá. Jú, það voru svo sem umræður þegar Evrópumálin bar sem hæst.

Ég tek sem dæmi norðurslóðamálin. Þau hafa bara á síðustu sjö, átta árum orðið að raunverulegu hagsmunamáli og áhugamáli þingsins, hvar eru þau? Þau eru hjá utanríkismálanefnd. Ættu þau að vera einhvers staðar annars staðar? Ættu þau að vera hjá umhverfisnefndinni? Við ræðum þau mjög sjaldan hérna nema af sérstöku tilefni. Það þarf að vera farvegur til að þingið geti rætt tiltekin mál. Það á ekki endilega að vera að frumkvæði framkvæmdarvaldsins heldur utanríkismálanefndar. Ég tel til dæmis að það væri vel til fundið að utanríkismálanefnd gæti ráðið því að hún tæki við umræðu um alþjóðlega björgunarmiðstöð af því að hún er komin á legg og það eru pólitískar spurningar sem þarf að svara um þátttöku þjóða, til dæmis Rússa.

Ég nefni TiSA. Það eru miklar deilur um það. Af hverju ræðum við það mál ekki hérna? Við gerum það ekki. Málið sem hv. þingmaður nefndi til dæmis um Tíbet, og önnur slík álitaefni, mannréttindabrot Kínverja og annarra, finnst mér að ætti að vera mál sem yrði rætt í utanríkismálanefnd og ef hún telur að tilefni sé til að ræða það, t.d. í tengslum við ákveðinn möguleika sem við höfum vegna hliðarsamnings með fríverslunarsamningunum við Kína, (Forseti hringir.) þá ætti það að vera á valdi utanríkismálanefndar að ræða í almennum umræðum æsingalaust með öðrum hætti en þegar við tökum upp sérstakar umræður sem oft bera keim burtreiða og verða ekki nógu málefnalegar fyrir vikið. (BirgJ: Heyr, heyr.)