145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já. Ég tel það. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni, sem að vísu sat ekki hér á síðasta kjörtímabili, að þegar ég var utanríkisráðherra og kom til þingsins með mál sem höfðu stjórnskipulegan fyrirvara voru það náttúrlega eingöngu EES-mál, en nánast alltaf mál sem engar líkur voru á að mundu valda einhverri úlfúð eða deilum. Það voru hins vegar mál sem kröfðust lagabreytinga.

Í nokkrum tilvikum hafði ég sjálfur efasemdir um að viðkomandi mál stæðist stjórnarskrá, því að það var ekki ljóst í öllum tilvikum. Þar var um að ræða framsal valds, ég nefni flugsektarmál og fleira, smámál, en öll tekin saman fannst mér vera komið út af hinu gráa svæði sem stjórnskipan heimilar. Þá kom ég með þau í Alþingi og ræddi áður. Þau voru ekki flutt nema í einu tilviki þar sem um var að ræða flýtimeðferð vegna tilskipunar um viðskipti með loftslagskvóta þar sem þurfti að leiðrétta ákveðna hluti. Þessi mál flutti ég nánast alltaf áður en ég fór út eða leyfði mínum embættismönnum að skrifa undir þau. Þannig ætti það helst að vera.

Kannski get ég tekið nýlegra dæmi sem er um þennan fjárfestingarbanka í Asíu sem augljóslega hafa risið deilur um, óvæntar, og skera á flokksbönd og böndin sem liggja milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það væri æskilegra að það hefði verið gengið frá því áður.

Um aðra samninga eins og til dæmis TiSA-samninginn er það þannig að ráðherrann hefur fullkomið leyfi til þess að skrifa undir. Hann þarf ekki að koma með það til Alþingis. Það má hins vegar segja hæstv. ráðherra til hróss, Gunnari Braga Sveinssyni, að hann hefur ákveðið að láta þingið ræða það og koma með samninginn í formi þingsályktunartillögu. Þar er tekið tillit til lýðræðisins og skoðana sem upp hafa komið. (Forseti hringir.) Kannski ætti að ganga frá slíku miklu harðar og hafa klárari reglur um það. — En svarið er já.