145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

40 stunda vinnuvika.

259. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að til þess að svara með einhverjum gögnum þyrfti ég að sjá fjallað um málið í nefnd þar sem viðlíka spurningum um tiltekin störf og tiltekin laun í tilteknum stéttum er best svarað. Hins vegar óttast ég ekki að til lengri tíma muni launin skerðast og það er ekki markmið frumvarpsins.

Það þykir alltaf hálfsjálfsagt að það sé nauðsynlegt að vinna jafn mikið og við vinnum á hverjum tíma. Samkvæmt þeirri söguskýringu sem ég fann þegar ég leitaði að gögnum um þetta mál er tilfellið samt það að átta tíma vinnudagur var ekki reiknaður þannig út að með átta tímum á dag fengist mesta framleiðnin, að þannig fengi fólk best borgað eða að þannig mundi fólk hafa í sig og á. Þetta var einfaldlega þannig að það eru 24 klukkustundir í sólarhringnum og fólk þurfti að vinna mjög mikið til að hafa í sig og á og þá kom upp sú krafa á sínum tíma, gott ef það var ekki í lok 19. aldar án þess að ég þori að fullyrða það, að skipta þessu í þrennt, átta tímar fyrir svefn, átta tímar fyrir leik, átta tímar fyrir vinnu. Sú skipting var ekki gerð með neinum vísindalegum hætti. Þess vegna hygg ég ekki að það sé meiri ástæða til að halda að maður gæti lifað af átta tíma vinnudegi en einhverju öðru.

Ég held að launaþróunin taki alltaf mið af umhverfi sínu. Sem dæmi hefur því alltaf verið spáð að miklar skattahækkanir mundu sjálfkrafa leiða af sér atvinnuleysi. Það er ekki reyndin. Ástæðan er sú að efnahagurinn þróast meðfram, hagkerfið bregst við slíkum breytingum. Mér finnst ekkert samasemmerki milli þess að stytta vinnudag og greiða lægri laun. Ég trúi því ekki að til lengri tíma yrði það þróunin, hugsanlega til skemmri tíma, en þetta er nokkuð sem þyrfti að ræða betur í nefnd.