145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

viðbrögð við undirskriftasöfnun.

[15:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða ákall 75 þús. Íslendinga til stjórnvalda um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það var athyglisvert að heyra hæstv. forsætisráðherra guma af því rétt í þessu að 19 milljarðar hefðu verið lagðir í heilbrigðiskerfið í ár til viðbótar frá síðasta ári. Það er svolítið athyglisvert að setja það í samhengi við til dæmis virðisaukann, hver ætli hann sé af sölu Borgunar frá því hún átti sér stað og til dagsins í dag? Ætli það láti ekki nærri að það séu 10–15 milljarðar, svo að fólk átti sig á því um hvaða tölur við erum að tala. Þeir fjármunir sem hér er verið að guma af munu ekki gera mikið meira en að standa undir launa- og verðlagsbótum á þessu ári og þá aðallega vegna kjarasamninga sem ríkisstjórnin hefur sjálf gert. Það fer nánast ekkert til nýrra verkefna.

En hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi í ræðu sinni áðan að hann sæi þó þörf á því að gera bragarbót, þá sérstaklega vegna hjúkrunarheimilanna í landinu þar sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi af þeim sem til þekkja, vegna heilsugæslunnar og vegna lyfjakostnaðar. Það er náttúrlega ekki nýtt af nálinni, menn þekkja umræðuna um S-merktu lyfin og sjúklingakvótana sem hafa verið við lýði vegna úthlutunar þeirra á síðasta ári. Það er ástand sem er auðvitað algerlega óviðunandi á tímum þegar við erum að rísa upp úr efnahagslegri lægð og erum komin inn í efnahagslegan bata og góðæri sem menn guma af, að forgangsröðunin skuli þá vera þannig að það sé neyðarástand í heilbrigðismálum á Íslandi, hornsteini velferðarkerfisins.

Því vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig ætlar hann að mæta þeim þáttum sem hann tiltók (Forseti hringir.) sérstaklega sjálfur, þ.e. uppbyggingu hjúkrunarheimila, heilsugæslu og lyfjakostnaðarmálum, á yfirstandandi ári? Hvernig á að svara ákalli 75 þús. Íslendinga?