145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra á mánudaginn rakti ég það ófremdarástand sem er að skapast í málefnum ferðaþjónustunnar og er ekki hægt að orða það með neinum öðrum hætti.

Það er grafalvarlegt mál þegar við sjáum það mikla álag sem nú er að verða á innviði samfélagsins án þess að gjaldtaka komi í staðinn til að standa undir nauðsynlegum úrbótum á innviðum vegna fjölgunar ferðamanna.

Nú í janúar var fjöldi ferðamanna jafn mikill og í júnímánuði árið 2012. Við sjáum fréttir af alvarlegum slysum á fólki og fólki í lífshættu á fjölförnum ferðamannastöðum. Og álagið á löggæslu, á heilbrigðisþjónustu og á vegakerfið er með þeim hætti að ástandið er orðið grafalvarlegt.

Ef við ætlum að taka á móti 1,5 millj. ferðamanna á ári má líkja því við að hér sé að jafnaði í landinu um 70.000 manns til viðbótar við þá 330.000 sem hér búa. Það segir sig sjálft að 330 þúsund manna þjóð getur ekki búið til innviði fyrir 400 þúsund manna þjóð af eigin skattfé nema færa alvarlegar fórnir. Við þurfum þá að sætta okkur sjálf við lélegri heilbrigðisþjónustu og lélegra vegakerfi en við byggjum ella við.

Það þarf að finna leiðir til þess að þessir 70.000 manns sem eru hér á hverjum tíma leggi af mörkum í innviðafjárfestingu eins og eðlilegt er. Sagt er að ferðaþjónustan búi til svo mörg störf og að það séu svo miklar tekjur af henni. Allt er það rétt og þetta er mikilvæg og góð atvinnugrein. En allar aðrar atvinnugreinar skila hagnaði í þjóðarbúið. Einu skatttekjurnar af greininni í dag umfram tekjuskatt af fyrirtækjunum sem í henni starfa er virðisaukaskattur í neðra þrepi. Ef það væri fullnægjandi væri nóg fyrir okkur hin að greiða bara virðisaukaskatt í neðra þrepi og engan tekjuskatt.

En það þarf meira til og það er grundvallarvandamál (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir núna sem stendur upp á greinina sjálfa að spila út frumkvæði um með hvaða hætti hægt er að auka gjaldtöku af ferðamönnum (Forseti hringir.) þannig að þetta leiði ekki til alvöru velferðartaps fyrir Íslendinga alla.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna