145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

um fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi sendi ég hæstv. forseta og ritara forsetaskrifstofu bréf þar sem ég óskaði eftir að fá að komast að undir liðnum störf þingsins til að gera leiðréttingu á upplýsingum sem ég gaf í ræðu hér í gær. Ég komst ekki á mælendaskrá og hef ekki fengið að leiðrétta ummæli mín fyrr en nú en það hefur hins vegar þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson fengið að gera í minn stað af einhverjum ástæðum. Hafi hann þakkir fyrir það sæmilega litlar.

Í ummælum sem ég lét falla hér í gær um fjölda banaslysa í Reynisfjöru byggði ég á upplýsingum í fjölmiðlum um að þar hefðu orðið sex banaslys á síðustu árum. Það er ekki rétt. Nú hafa þessar fréttir verið uppfærðar og það er talað um nokkur banaslys en ekki tiltekna tölu. Ég hef ekki komist aftar en til 2007. Frá þeim tíma hafa tvö banaslys orðið við Reynisfjöru en að minnsta kosti níu manns hafa komist þar í bráða lífshættu. Þessar tölulegu upplýsingar breyta í raun og veru engu um efni míns máls en rétt skal vera rétt og mér er ljúft og skylt (Forseti hringir.) að leiðrétta þetta hér. Ég sá hins vegar ekki alveg ástæðu fyrir aðra þingmenn, þingmenn stjórnarflokkanna, til að gera það í minn stað þegar forseti vissi fullvel að ég hafði óskað eftir því að koma strax á mælendaskrá til að leiðrétta þessi ummæli.