145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að taka að sjálfsögðu vel undir þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, flytur og hefur haft forgang um og boðið okkur öðrum átta þingmönnum að vera á, sem við gerum auðvitað með glöðu geði. Tillagan er um að efla samstarf Íslands og Grænlands eins og hv. þingmaður hefur farið svo vel í gegnum og þau 15 atriði sem þar eru nefnd með ákaflega ítarlegri og vel fram settri greinargerð.

Tillagan er einfaldlega þessi, með leyfi forseta:

„Alþingi lýsir stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og felur ríkisstjórninni að efla tengsl og samvinnu við Grænland með því að …“ og svo eru talin upp 15 atriði um hvernig Alþingi geti lýst stuðningi við þetta verkefni og tekið að sér að koma þessum áformum í verk. Þetta eru 15 atriði og ég ætla að taka nokkur þeirra til umræðu í byrjun áður en ég kem að þeim þætti sem ég vildi gera að aðalumtalsefni, þ.e. samgöngum á milli landanna.

Í fyrsta lagi er það fullt tollfrelsi. Já, að sjálfsögðu. Við höfum beitt okkur fyrir og samþykkt meðal annars tillögu frá hv. þingmanni um fríverslunarsamning við Kína og nýlega hefur verið mælt fyrir tillögu um fríverslunarsamningi við Japan. Allt eru þetta leiðir í hinum nýja heimi um aukna fríverslun og flæði milli landa. Ég tek að sjálfsögðu undir þetta.

Síðan er nefnt að örva tengsl milli yngstu kynslóða þjóðanna. Virðulegi forseti. Má ég aðeins geta um mikið og gott verk Illuga Jökulssonar og þeirra í Skákfélaginu Hróknum (Gripið fram í: Hrafns.) — Hrafns Jökulssonar, fyrirgefið þið, um samskipti þar á milli sem er alveg aðdáunarvert. Má ég líka nefna einn hlut sem margir hugsa kannski ekki út í. Við bjóðum nú þegar grænlenskum börnum til Íslands til að læra sund. Íþróttakennarinn sjálfur dáist að þessu og nefnir það vegna þess að við þurfum að bjóða grænlenskum börnum hingað til okkar og þjálfa þau upp í sundmenntinni.

Hér er líka talað um aukið samstarf háskólanna, að sjálfsögðu er það mikið og gott verkefni.

Í fimmta lið er lagt til að bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna. Ég hef nýlega átt fund með forstjóra og eiganda Brims þar sem hann kynnti fyrir okkur það sem hann er að gera á Grænlandi bæði hvað varðar fiskvinnslu sem er auðvitað alveg frábært, skapar vinnu, og varðandi veiðar. Það var mjög athyglisvert að hlusta á viðkomandi mann segja okkur fréttir af því hvernig fiskgengd er að aukast upp með vesturströnd Grænlands. Fleiri fyrirtæki eiga í samstarfi við Grænlendinga eins og Síldarvinnslan í Neskaupstað og fleiri aðilar, t.d. á sviði loðnu. Ég hef nýlega gert að umtalsefni nýja aflareglu í loðnu og gagnrýnt í tengslum við hana þann fjárskort sem Hafrannsóknastofnun býr við til rannsókna. Við verðum að hafa í huga að vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar sjávar er mjög líklegt og margir telja að loðnan fari miklu norðar í kaldari sjó og verði miklu meira inni í lögsögu Grænlendinga en kannski áður var. Er þá ekki mikið og gott verk að samvinna sé um að fylgjast með þessum mikilvæga stofni þannig að um sjálfbærar veiðar verði að ræða?

Í sjötta lið er athyglisverður punktur, að beita sér fyrir samkomulagi milli samtaka atvinnulífs landanna. Nú er mér ekki kunnugt um hvernig það starf er rekið á Grænlandi en Samtök atvinnulífsins eru stór og öflug og með mikla starfsemi á Íslandi. Ég er nokkuð viss um að í samvinnu þarna á milli þá getum við stutt vel við Grænlendinga og komið ýmsu til leiðar.

Í sjöunda lið er talað um læknis- og heilbrigðisþjónustu. Má ég minna á, virðulegi forseti, að töluvert hefur verið um að sjúklingar hafi komið til Íslands frá Grænlandi? Ég veit þó ekki nákvæmlega í hve miklum mæli og hvað það eru margir Grænlendingar sem njóta læknis- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi vegna þessarar samvinnu. En þetta er hlutur sem við getum boðið Grænlendingum, frændþjóð okkar, upp á í meira mæli og þar kemur flugið auðvitað mjög sterkt inn.

Þá kem ég að því sem ég vildi kannski gera helst að umtalsefni en það er ferðaþjónusta og samgöngur milli landanna. Ég vil segja það að ég fór einu sinni sem samgönguráðherra í ferð til Grænlands og það var athyglisvert að eiga samtal við Grænlendinga um þetta. Það var mjög athyglisvert að heyra að Grænlendingar vildu auka mjög möguleika á flugi milli Íslands og Grænlands. Hér er talað um að hafa þann möguleika í ferðaþjónustu okkar á Íslandi að bjóða upp á ferðir til Grænlands frá Íslandi, sama hvort það er frá Akureyri, Keflavík eða Reykjavíkurflugvelli. Það væri mjög mikilvægt innlegg og mundi nýtast okkur mjög vel ef ferðamenn sem vilja koma til Íslands og heimsækja okkur og skoða okkar fögru og fínu náttúru ættu líka möguleika á dagsferð eða tveggja daga ferð til Grænlands í meiri mæli en nú er.

Þá kemur upp ein spurning sem ég er þó ekkert voðalega undirbúinn til þess að spyrja um. Mig minnir að í umræðunni um aukið flug milli landannna hafi komið upp að ekki sé í gildi svokallaður loftferðasamningur milli Íslendinga og Grænlendinga. Mig minnir endilega að sagt hafi verið að það væri vegna þess að Danir vildu það ekki. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, fyrrverandi utanríkisráðherra, en utanríkisráðuneytið fer með svona samninga, hvort að hann muni og geti sagt okkur frá hvort þetta sé rétt munað hjá mér og hvort einhverjar breytingar hafi orðið þar á eða hvort þetta sé kannski svolítið tog á milli Íslendinga og Dana frekar en Grænlendinga.

Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að samgöngur eru jú undirstaða fyrir allt sem talað er um í þeim 15 liðum sem hér eru settir upp, aukin ferðatíðni og meiri möguleikar á flugi þar á milli. Það þarf auðvitað ekki að geta um að þegar maður talar við Grænlendinga þá kvarta þeir mest yfir hvað dýrt er að fljúga milli staða, sérstaklega þegar þeir geta ekki farið nema á fáa flugvelli og við tekur dýrt þyrluflug þar á milli.

Hér er svo rætt um aðra þætti eins og sjálfbæra auðlindanýtingu, skipaleiðir á norðurslóðum sem koma fyrr en seinna og um loftslagsvá, að taka upp aukið samstarf á því sviði og þar spilar auðvitað inn í það sem ég ræddi um fiskimið þessara tveggja landa.

Virðulegi forseti. Það segir í einum kafla greinargerðarinnar með tillögunni, með leyfi forseta:

„Þó að íslenska þjóðin og sú grænlenska hafi um langt skeið átt í margvíslegum jákvæðum samskiptum er tímabært að efla þau að miklum mun. Ísland á að sýna í verki að það vill ljá Grænlandi framtíðarinnar bæði ráð og dáð.“

Það skulu vera mín lokaorð að það ætti að vera keppikefli okkar á Alþingi að samþykkja þessa þingsályktunartillögu áður en þingi lýkur í lok maí þannig að ríkisstjórnin geti farið að vinna eftir því sem segir í tillögunni eins og hún er eða eitthvað breyttri í meðförum nefndarinnar til þess að efla bæði ráð og dáð milli landanna.