145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

íþróttakennaranám á Laugarvatni.

[10:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á fundi háskólaráðs í dag verður sennilega ákveðið að slá af háskólanám á Laugarvatni, færa nemendur til Reykjavíkur og um leið fækka opinberum störfum í Bláskógabyggð. Allir þingmenn kjördæmisins hafa mótmælt því sem virðist vera eindreginn vilji háskólaráðs, að flytja íþrótta- og heilsufræðinám frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Í þingmannahópnum eru átta stjórnarþingmenn, hv. formaður menntamálanefndar og hæstv. byggðamálaráðherra þar á meðal. Þingmennirnir hafa allir lýst vilja sínum til að vinna að farsælli lausn sem gagnist nemendum, rekstri háskólans og þeirri byggð sem þjónustað hefur skólann í áratugi. Að okkar mati blasir við að ráðast þurfi í frekari greiningu á þeim tækifærum sem felast í námsumhverfinu á Laugarvatni áður en lokaákvörðun verður tekin.

Nemendum í kennaranámi hefur fækkað í öllum deildum eftir lengingu kennaranámsins og íþróttakennaranámið er engin undantekning en tækifærin á Laugarvatni felast í aukinni þörf fyrir fagmenn á sviði lýðheilsu.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hafi beitt sér fyrir því að háskólaráð fresti ákvörðun sinni á meðan sveitarfélagið, ráðuneytið og háskólinn vinni saman að frekari greiningu og kynningu á þeim tækifærum sem felast í námsumhverfinu á Laugarvatni. Telur hæstv. ráðherra það ásættanlegt að þjónusta Háskóla Íslands við landsbyggðina fari minnkandi og að eina háskólastofnunin á Suðurlandi sé lögð af án raunverulegra tilrauna til að sporna við fæti? Telur hæstv. ráðherra rök háskólans réttlætanleg og nægileg til að flytja nám og störf frá landsbyggðinni til Reykjavíkur með þessum hætti? Hefur málið verið rætt í hæstv. ríkisstjórn sem meira að segja vill kenna sig við Laugarvatn?