145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014.

417. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014 en undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Brynjar Níelsson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þór Þórhallsson, Elsa Lára Arnardóttir, Árni Páll Árnason, Willum Þór Þórsson og Brynhildur Pétursdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Við fengum umboðsmann Alþingis á fund nefndarinnar 22. september 2015 og tókum auk þess málið til umræðu á fundum nefndarinnar 12., 17. 26. nóvember síðastliðið haust.

Í skýrslu umboðsmanns Alþingis er yfirlit yfir starfsemi embættisins á árinu 2014 og vakin athygli á meginþáttum í starfi umboðsmanns. Á fundum nefndarinnar var fjallað um helstu ábendingar í skýrslunni og þær sem umboðsmaður vakti athygli á. Þar var sérstaklega fjallað um frumkvæðismálin, sem ég mun koma að síðar í máli mínu, og það forvarnagildi sem vinnsla þeirra hefur fyrir stjórnsýsluna auk möguleika til að auka gæði þjónustunnar sem hún á að veita borgurunum.

Í skýrslunni kemur fram að málafjöldi sem berst embætti umboðsmanns Alþingis hefur farið vaxandi á undanförnum árum, fór úr 300 og upp í 500 kvartanir á ári, það er um 40% aukning. Nefndin er á því máli að aukinn málafjöldi síðustu ár sé skýr vitnisburður um tvennt, annars vegar um það traust sem umboðsmaður nýtur og hins vegar merki um aukna réttarvitund hjá borgurunum, hjá almenningi.

Við fjöllum um heimasíðu umboðsmanns Alþingis og setjum hana inn í það samhengi að fram hafi komið að 50–60% erinda sem berast embætti umboðsmanns Alþingis er vísað frá að lokinni athugun hjá embættinu þar sem þau uppfylla ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður geti fjallað um þau. Þarna kemur heimasíðan aftur til sögunnar vegna þess að það er mjög mikilvægt að okkar mati að almenningur sé vel upplýstur um kæruleiðir sem eru til staðar innan stjórnsýslunnar, það megi meðal annars gera á heimasíðu embættisins, og að þær séu tæmdar áður en fólk snýr sér til embættis umboðsmanns. Þess vegna leggjum við ríka áherslu á þennan upplýsingagefandi þátt í starfsemi embættis umboðsmanns Alþingis.

Við fjölluðum um verksvið umboðsmanns Alþingis og kom í ljós að verkefni og staða mála hjá þessu embætti er um margt áþekk því sem gerist hjá öðrum norrænum ríkjum. Ýmis álitamál sem embætti umboðsmanns Alþingis glímir við eru sambærileg við þau sem eru til umfjöllunar hjá embættum annars staðar á Norðurlöndum. Þar kom upp mál sem vert er að vekja athygli á, nefnilega að íslensk löggjöf byggir um margt á löggjöf í öðrum norrænum ríkjum, við höfum sótt margt þangað, og þar hefur myndast sú hefð að embættismenn sem hafa umsjón með gerð lagatexta horfa til Norðurlandanna. Þá er atriði sem kom fram í máli umboðsmanns Alþingis sem okkur þótti umhugsunarvert. Það er þetta: Innan stjórnsýslunnar fer málakunnátta, þekking á norrænum tungumálum, þverrandi og yngri hluti embættismanna í stjórnsýslunni er ekki mælandi á norræna tungu. Þarna eru því að verða ákveðin skil. Við erum annars vegar með löggjöf sem byggir á norrænni löggjöf en við erum síðan með mannskap sem ekki ræður við að lesa eða vinna með þessi tungumál. Nefndin telur miður að svo sé og telur að huga þurfi að því að efla kennslu í norrænum tungumálum og að efla þurfi norrænt samstarf innan stjórnsýslunnar. Það er okkar mat. Þetta norræna samstarf hefur sparað Íslendingum gríðarlega fjármuni, ekki síst á sviði lagagerðar þegar litið er aftur í tímann. Við eigum að taka þessar ábendingar mjög alvarlega að mínum dómi og var nefndin á því að svo bæri að gera.

Ég vék aftur að mikilvægi fræðsluefnis á heimasíðu og við nefnum það líka í samantekt okkar að hlúa þurfi að kennslu og endurmenntun hjá starfsmönnum stjórnsýslunnar með markvissari hætti en gert er og hefur verið.

Síðan var staðnæmst við það að fjöldi mála sem berast embættinu og tengjast opinberum starfsmönnum hefur farið vaxandi. Fram kom hjá umboðsmanni Alþingis í því sambandi að hann telur aukninguna fyrst og fremst eiga rætur í breytingum á starfsumhverfi opinberra starfsmanna, þ.e. meiri þrengingum á vinnumarkaði. Benti umboðsmaður á, og hér vitna ég, með leyfi forseta, beint í samantekt okkar:

„… að lagagrundvellinum væri ekki ábótavant heldur skorti á að þeir sem færu með starfsmannamál hjá stjórnvöldum hefðu nægilega þekkingu og reynslu í að beita þeim reglum sem gilda um mál opinberra starfsmanna. Hér sé því um stjórnunarvanda hjá þeim sem eiga að fara með starfsmannamál hjá stjórnvöldum en ekki ófullnægjandi lagagrundvöll. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur mikilvægt að unnið verði að því að uppfræða stjórnendur um þennan málaflokk.“

Við víkjum að málshraða og teljum að tryggja þurfi embættinu nægilegt fjármagn til að stytta megi afgreiðslutíma mála og það verður gert með auknum mannafla. En ég vil taka eitt mjög skýrt fram: Embætti umboðsmanns Alþingis hefur sem öðrum opinberum stofnunum verið gert að hagræða, eins og það er kallað, mæta niðurskurði, sérstaklega á þrengingarárunum, með breyttum vinnubrögðum. Það hefur embættinu tekist mjög vel að leysa með því að stytta bréf, gera alla vinnslu mála markvissari. Er ástæða til að hrósa embættinu fyrir að bregðast við á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þegar þrengingar steðja að, eins og var. Í því sambandi vísum við til einföldunar á allri málsmeðferð. Það er hluti af þeirri hugsun.

Síðan kemur að frumkvæðismálunum. Það er mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að það sé þáttur sem við þurfum að sinna vel og að embættið eigi að hafa tök á að sinna vel. Við lögðum áherslu á það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að embætti umboðsmanns Alþingis fengi viðbótarfjármagn til að sinna þessu hlutverki. Það var slæmt að ekki varð af því við afgreiðslu síðustu fjárlaga og leyfi ég mér að beina því til hv. fjárlaganefndar að skoða þau mál sérstaklega við gerð fjárlaga fyrir komandi ár. Það hefur sýnt sig að frumkvæðismálin eru til þess falin að spara þegar til lengri tíma er litið auk þess sem þau stuðla að betri stjórnsýslu. Við eigum ágætt orðtak um þetta: Að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Þetta er liður í þeirri hugsun. Við leggjum ríka áherslu á að embættinu verði gert fært að sinna frumkvæðismálum og þá þarf að koma viðbótarfjármagn. Það fjármagn kom ekki í síðustu fjárlögum, en ég ítreka að æskilegt er að það verði endurskoðað fyrir komandi fjárlagaár.

Við fjöllum um meinbugi á lögum og framkvæmd allri og víkjum þar að ýmsum þáttum, ýmsum málum sem hafa komið fyrir embættið. Við fjöllum sérstaklega um þá samþykkt Alþingis að hrinda í framkvæmd svokölluðum OPCAT-skuldbindingum sem snúa að pyndingum og grimmilegri, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð á fólki, en í því regluverki öllu ber okkur að tryggja eftirlit hjá sjálfstæðum eftirlitsaðila. Það er til skoðunar hvar vista eigi slíkt eftirlit. Það tengist síðan öðru máli sem við vekjum einnig sérstaka athygli á, þ.e. eftirliti með lögreglu. Það mál hefur komið til Alþingis eftir mismunandi farvegum á síðustu missirum og árum og vil ég nefna nokkra þætti. Í fyrsta lagi er það í greinargerð með frumvarpi sem ég lagði fram sem fyrrverandi innanríkisráðherra um eftirlit með lögreglu að þinginu bæri að taka þetta mál til skoðunar og það ætti að vera á verksviði þingsins að finna leið og form til að hafa eftirlit með löggæslunni. Síðan liggur fyrir þingsályktunartillaga frá Pírötum þess efnis að koma beri á sérstakri stofnun til að sinna þessu hlutverki og er erindinu í þeirri þingsályktunartillögu í rauninni beint til forsætisnefndar. Hæstv. innanríkisráðherra hefur verið með skoðun á málinu, skipað nefnd og efnt til mikillar umræðu um það. Er það mjög lofsvert.

Fyrirhugaður er sameiginlegur fundur með hæstv. innanríkisráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og allsherjarnefnd til þess að ræða þessi mál. Hæstv. innanríkisráðherra hefur boðað til slíks fundar og fagna ég því. Mér fyndist ekki óeðlilegt að við skoðuðum þessi mál í samhengi, annars vegar eftirlit með þessum OPCAT-skuldbindingum, sem er um pyndingar og ómannúðlega meðferð fólks sem hefur verið vistað á stofnunum, og síðan með lögreglunni. Hver sem endanleg niðurstaða verður og hvar þessi mál verða vistuð er svo önnur saga. Það er mikilvægt að mínum dómi að flýta sér ekki um of í þessum efnum. Okkur liggur ekki eins á og mörgum ríkjum Evrópu sem eru að glíma við annan vanda en Íslendingar. Þau eru með leyniþjónustur og þurfa eftirlit með auknum umsvifum leyniþjónusta. Við erum svolítið á öðrum vagni hvað það snertir. Ég tel hins vegar mjög brýnt að koma á eftirliti af þessu tagi og finna því á einhvern hátt stofnanalegan farveg.

Síðan er atriði sem umboðsmaður gerir sérstaka athugasemd við og ég tel að okkur beri að staðnæmast við. Það er þegar vald er fært frá ráðherrum til sjálfstæðra stjórnvalda, til úrskurðarnefnda. Þá er það þannig að úrskurðarnefndirnar fá endanlegt úrskurðarvald, eins og heiti nefndanna ber með sér, en ábyrgðin á málaflokknum er engu að síður í ráðuneytinu og hjá ráðherranum sem hefur síðan ekkert með framkvæmdina að gera. Þegar umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við störf þessara úrskurðarnefnda hefur það gerst í að minnsta kosti tveimur tilvikum að ekki er tekið tillit til þeirra athugasemda. Auðvitað hefur umboðsmaður Alþingis ekki neitt lögþvingunarvald í þessum efnum, en vegna þess að valdið hefur verið fært frá ráðherra finnst manni mikilvægt að tekið sé tillit til álits umboðsmanns Alþingis. En það hefur ekki verið gert og er að finna útlistun á því í greinargerð okkar sem fólk getur nálgast á vef Alþingis. Ég hef ekki tíma til að fara í þessi einstöku mál. Menn hafa horft til Norðurlandanna í þessum efnum og sagt að þar sé líkt á komið, en sá grundvallarmunur er engu að síður á stöðu okkar og því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum að þar er að finna, alla vega í einhverjum ríkjum, stjórnsýsludómstóla sem hægt er að skjóta ákvörðunum til. Við erum ekki með slíkan dómstól. Við slíkar aðstæður er fráleitt annað en að þessar úrskurðarnefndir taki tillit til ábendinga sem koma frá umboðsmanni Alþingis og hafa verið mjög vel rökstuddar að mínu mati. Þetta er lagagrunnur sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beinir til Alþingis að taka til sérstakrar skoðunar.

Síðan er það hitt, sem er líka athyglisvert, að í málum sem heyra undir ráðuneyti og hafnað hafa hjá ríkislögmanni til úrskurðar eða athugunar má það ekki gerast að ráðuneyti og ráðherrann sem er ábyrgur fyrir málaflokknum telji sig firrtan allri ábyrgð. Hún er hjá honum en ekki hjá ríkislögmanni til að finna endanlegar niðurstöður eða hjá þeim úrskurðarnefndum sem þó starfa í málaflokkum og taka ákvarðanir í viðkvæmum málum.

Við teljum að lokum mjög mikilvægt að umboðsmaður Alþingis haldi áfram að vera sá öryggisventill sem hann er fyrir borgara þessa lands. Nefndin ítrekar skyldu stjórnvalda til að veita umboðsmanni þær upplýsingar sem hann óskar eftir enda er það grundvöllur þess að hann geti sinnt því mikilvæga verkefni sem Alþingi hefur falið honum, að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og hvernig það þjónustar borgarana. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að stjórnvöld fari að tilmælum umboðsmanns. Auðvitað á það við um umboðsmann eins og okkur öll að við erum ekki óskeikul, en staðreyndin er sú að embættið hefur unnið mjög vel á mjög skýrum, faglegum, málefnalegum forsendum og þegar svo er og stjórnvöld fá ábendingar frá þessu embætti sem eru grundvallaðar á slíkum vinnubrögðum ber að taka þær ábendingar alvarlega.