145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

starfsreglur verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

[13:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og endurtek það sem ég hef áður sagt, að vitaskuld stend ég með lögum um verkefnisstjórn um rammaáætlun eins og með öðrum lögum. Ég hef talið mig standa talsverðan vörð um rammaáætlun og þá verkefnisstjórn sem er að vinna. Þetta er afar viðkvæmt. Þetta er eins og að standa á jafnvægisás þar sem ólmir menn hoppa hvor á sínum ásnum og maður er að reyna að halda slánni nokkurn veginn í jafnvægi. Mér sýnist að það sé sama á hvorum ásnum menn eru, þeir eru jafn ákafir í að reyna kannski að raska þessu jafnvægi og eru alls ekki með hugann við það að bjarga rammanum, ekki fremur en margir aðrir sem m.a. sitja í þessum sal og voru að möndla nákvæmlega á þessum tíma fyrir fjórum árum hvort þennan virkjunarkost eða hinn ætti að taka út eða halda inni. Ég hef ekki skipt mér af slíku, segi það nákvæmlega. Ég hef talið mig halda mig nákvæmlega við það að verkefnisstjórn hafi sinn frið til að vinna og ég hef þurft að standa ansi vel á því og stappa stundum niður fótum til þess að hægt sé að vinna þannig.

Landsvirkjun sendi bréf til verkefnisstjórnar í júnímánuði fyrir ári síðan þar sem talað var um að verkefnisstjórn væri ekki að fara að lögum, hafði síðan beðið mig um fund í framhaldi af því og mér fannst eðlilegt eftir sumarfrí að ræða við forustumenn Landsvirkjunar eins og hverja aðra sem biðja um fund í ráðuneytinu. Þar flokka ég fólk ekki eftir því hvaðan það kemur og vitaskuld var það bara að segja mér það sem ég vissi af, að þetta bréf hefði borist. Ég hef auðvitað líka talað og hef stöðugt samband við formann verkefnisstjórnar, ekki aðra þar, mánaðarlega fundi. Ég sagði við (Forseti hringir.) formanninn í fyrrasumar að ef hann þyrfti frekara (Forseti hringir.) lögfræðilegt álit þá væri ráðuneytið meira en tilbúið að leggja honum lið til að hann gæti fengið slíkt lögfræðiálit varðandi störf verkefnisstjórnar.