145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil byrja á að segja að það er ekki rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég hafi ekki tengt breytingarnar á flugskýlinu við breytingar í heiminum. Það er einmitt það sem ég sagði. Það eru nýjar, öflugri vélar sem þarf að vera hægt að hýsa í Keflavík vegna þess að þær eru að leita að kafbátum í kringum Ísland. Þannig er það bara, því miður, þannig að auðvitað tengist þetta þeirri heimsmynd.

Það að bandaríski herinn, flotinn, sé tilbúinn að kosta eða vilji kosta viðgerðir á þessu flugskýli, NATO-flugskýli nota bene svo því sé haldið til haga, finnst mér í rauninni jákvætt. Það lendir þá ekki á okkur.

Það er ekki búið að spyrja margra spurninga hér í dag en samt hafa nokkrar komið fram. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort til stæði að breyta hinu pólitíska samkomulagi. Í langan tíma hafa staðið yfir viðræður um hvort þetta samkomulag sé nógu gott, nái akkúrat utan um það sem við erum að ræða í dag eða hvort við þurfum að uppfæra það með einhverjum hætti. Ég hef farið fram á það, og það hefur komið fram áður úr þessum ræðustól, að slíkar viðræður þurfa að eiga sér stað. Þetta er orðið tíu ára gamalt samkomulag sem var gert 2006 og það þarf klárlega að fara yfir það út frá þeirri breytingu sem hefur orðið og líka út frá vilja Íslendinga.

Varðandi spurningar um varnarsamninginn er hann einfaldlega á vef utanríkisráðuneytisins þannig að sá sem gúglar varnarsamning ætti að fá hann upp. Þar eru líka viðaukarnir og þar kemur fram allt um þetta mál, það er ekkert erfitt að finna það.

Ég hef marglýst því yfir að það eru engar viðræður í gangi um að varnarliðið komi aftur í Keflavík. Það eru engar viðræður um það og engar óskir hafa komið fram um varanlega viðveru hers á Íslandi. Ég get ekki sagt það miklu skýrar, það er ekki hægt. Menn geta svo reynt að snúa út úr því, ég hef ekki hugmynd um hvað mönnum dettur í hug með slíkt.

Það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, norðurskautið hefur verið mjög friðvænlegt fram að þessu og verður það vonandi áfram. Við leggjum mikla áherslu á að svo verði. Það eru (Forseti hringir.) einhver teikn á lofti, en þau eru ekki — ég ætla ekki að taka eins djúpt í árinni og hv. þingmaður gerði áðan. Síðan talar hv. þingmaður um klisjur. Gleymum því ekki að hv. þingmaður sat í fjögur ár í ríkisstjórn sem hefði getað breytt öllu þessu. (Gripið fram í.)