145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að halda örstutta ræðu til að drepa á nokkur atriði sem mér eru hugleikin í sambandi við þetta mál. Ég tel málið gott og er hlynntur því. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja það fram. En mér finnst einnig nauðsynlegt að setja það í samhengi við umræðu sem ég átti við ágætan hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um hvar svona mál eigi heima, hvort þau eigi heima í stjórnarskrá eða í lögum, og sömuleiðis hvernig stofnanir eða hlutir geti haft bein áhrif á lagasetningu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór inn á það í andsvörum við mig að stjórnarskrá sé hugsuð til að vernda borgarana fyrir ofríki yfirvalda, sem er auðvitað dagsatt og er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrár að mínu mat sem og hv. þingmanns. Ég tel hins vegar að stjórnarskrá þjóni einnig öðrum tilgangi, þar á meðal að skýra hvernig grundvöllur lagasetningarferlisins er, t.d. að Alþingi setji lög og að aðskilnaður sé á milli framkvæmdarvaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins. Eins og frægt er orðið vantar ákvæði um dómstóla í gildandi stjórnarskrá en samt erum við með dómstóla. Margir hafa lýst yfir vilja til að lagfæra það. Punkturinn er sá að í stjórnarskrá á fleira heima en einungis vernd borgaranna fyrir ofríki yfirvalda. Það þarf líka að vera algerlega á hreinu og það þarf að vera erfitt að breyta fyrirkomulagi sem er hugsað til þess að vera undirstaðan að lagasetningarferlinu. Það er af þeim ástæðum sem ég hygg að skynsamlegra væri að hafa þessa góðu tillögu í meginatriðum í stjórnarskrá og þá þannig að hún væri beinlínis hluti af lagasetningarferlinu.

Eins og ég kom inn á í andsvörum hefur verið lagt fram frumvarp áður, sem ég geri mér grein fyrir að er ekki gildandi lög og ekki gildandi stjórnarskrá, þar sem Lögrétta er lögð til í 62. gr. Í þessu ákvæði kemur fram sú tillaga að ekki megi afgreiða frumvarp fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir en hlutverk Lögréttu samkvæmt þeirri tillögu er mjög sambærilegt, ef ekki hreinlega nákvæmlega hið sama, og hér er lagt til að verði sett í hendur þessarar lagaskrifstofu.

Í meginatriðum hugsa ég að þingmenn almennt hafi ekki mikinn áhuga á því að leggja fram frumvörp sem kemur í ljós að brjóta í bága við stjórnarskrá, en eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur komið inn á hefur það samt sem áður gerst. Það er ekki nógu gott. Það er best að lögmæti laga og samræmi við stjórnarskrá sé á hreinu áður en frumvörp verða að lögum. Það hlýtur að segja sig sjálft. Að því leyti er óþægilegt að hér skuli stundum vera sett lög sem menn eru ekki sammála um hvort standist stjórnarskrá. Þá gerist það að ekki er tekið tillit til lögverndaðra hagsmuna einhvers og viðkomandi kærir og það endar í Hæstarétti. Gott dæmi um það er Hagstofumálið sem var til umræðu sumarið 2013, sem var mjög umdeilt en var samþykkt í krafti meiri hlutans á Alþingi við mikil mótmæli minni hlutans. Þá var ágreiningurinn um hvort það stæðist stjórnarskrá, stæðist jafnræðisregluna og ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs.

Það er eins og frumvörpin þurfi fyrst að verða að lögum og komast í framkvæmd og svo þurfi eitthvað að gerast. Allir sem hafa áhuga á málinu þurfa að bíða eftir því að það gerist, að ekki sé tekið tillit til einhverra lögvarðra hagsmuna. Þá þarf að kæra, fara með það í héraðsdóm og á endanum í Hæstarétt til að fá úr því skorið hvort um sé að ræða stjórnarskrárbrot eða ekki. Það er mjög pínlegt þegar sú umræða hefur þegar átt sér stað í þingsal við meðferð málsins að það ákvæði skuli vera rót ágreiningsins, það hvort frumvarpið standist stjórnarskrá eða ekki. Það á að liggja fyrir þegar frumvarpið er samþykkt, hvort sem það er Lögrétta samkvæmt stjórnarskrá eða lagaskrifstofa Alþingis sem einhvers konar aðstoðarskrifstofa fyrir þingmenn. Þess vegna styð ég frumvarpið, því að ég tel það verulega til bóta að hafa svona skrifstofu hér. Þá vil ég halda því til haga að slík skrifstofa hefði vafalaust hjálpað gríðarlega í umræðunni um Hagstofumálið sumarið 2013. Það er nú ekki eins og þetta sé ónýt tillaga bara vegna þess að hún er ekki í stjórnarskrá, langt í frá. En þó er ég þeirrar skoðunar að það sé best að þetta sé hluti af hinu formlega lagasetningarferli.

Það er eitt sem ég hjó eftir í frumvarpinu. Í 5. gr. stendur, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

„Lagaskrifstofa ræður starfsmenn sína eftir því sem fjárveitingar leyfa og er með sama skilorði heimilt að ráða menn til að vinna að einstökum verkefnum.“

Þetta er eðlileg klausa í lögum. Fjárveitingar eru mikilvægar til að halda svona starfsemi í gangi. Hins vegar mundi ég halda, ef þetta væri formlegur hluti af lagasetningarferlinu sjálfu, sem að mínu mati mundi krefjast þess að þetta væri í stjórnarskrá, að þetta yrði aldrei að vandamáli. Það væru sameiginlegir hagsmunir þingsins og allra annarra sem vilja halda lagasetningarferlinu í lagi yfir höfuð að Lögrétta eða lagaskrifstofa eða hvaðeina væri fjármögnuð þannig að hún gæti afgreitt lög. Þá væri það ekkert spursmál, þá þyrfti ekki að taka sérstaklega fram: Ef fjárveitingar leyfa. Auðvitað eiga fjárveitingar að leyfa það og það á ekki að vera neitt vafaatriði. Við erum jú að tala um samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins, undirstöðu réttar okkar þingmanna til að setja lög til að byrja með. Það er ekki eins og tilefnið sé ekki ærið eða hlutverk svona lagaskrifstofu eða Lögréttu ekki mikilvægt.

Þetta eru helstu vangavelturnar sem ég hef um þetta mál. Eins og ég segi styð ég málið þrátt fyrir að það sé ekki kannski útfært á nákvæmlega sama hátt og ég mundi sjálfur vilja eða við í flokknum mínum ef út í það er farið. Það eru stofnanir hér á landi sem veita mjög góða þjónustu og hafa jákvæð áhrif, eins og til dæmis umboðsmaður Alþingis sem nýtur gríðarlegrar virðingar, bæði í samfélaginu og eftir því sem ég fæ best séð innan stjórnsýslunnar. Það hefur þau áhrif að þegar umboðsmaður Alþingis úrskurðar eða leggur fram álit er tekið mark á því. En sú staðreynd er háð þeirri miklu virðingu sem embættið nýtur. Það eru ekki beinlínis lög, hvað þá í stjórnarskrá, að álit umboðsmanns Alþingis hafi sjálfkrafa beinar lagalegar afleiðingar, til að mynda ef hann telur brotalöm á lögum hefur það engin áhrif á gildi laganna. Þetta er vegna þeirrar virðingar sem embættið nýtur, sem er til komin vegna þeirra góðu starfa sem það hefur innt af hendi í gegnum tíðina. Þannig að stjórnsýslan almennt vill fara eftir þeim ábendingum ef hún er í meginatriðum sammála og telur sig geta það.

Mér finnst að þegar kemur að svona löguðu eigi þetta að vera algerlega á hreinu fyrir fram. Ég álít það mjög veigamikinn galla að Alþingi geti samþykkt frumvörp og gert að lögum sem er ríkur ágreiningur um hvort standist stjórnarskrá eða ekki. Mér þykir það í raun og veru mjög fráleit staða. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi en minni þó á 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs þar sem var farið í þetta. Það var gert ráð fyrir að þetta væri hluti af formlegu lagasetningarferli, sem ég tel miklu æskilegra.

Að því sögðu er ekkert fleira til að tíunda í bili, nema að þetta er mjög gott mál og ég vona innilega að það fái fulla meðferð þingsins. Ég hlakka til frekari umræðu um þetta mikilvæga mál og almennt þau mikilvægu mál sem varða það hvernig lagasetningu er háttað, hvernig Alþingi starfar og síðast en ekki síst, og jafnvel helst, hvað nákvæmlega eigi heima í stjórnarskrá og hvað ekki og hvernig nákvæmlega við viljum hafa stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.