145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski orðað þetta klaufalega í sambandi við dómsvaldið í stjórnarskrá. Ég man ekki hvernig ég orðaði það nákvæmlega en eins og bent hefur verið á er ekki fjallað þar um Hæstarétt eða mjög náið um dómsvaldið þótt auðvitað sé minnst á það og einhver orð höfð um það. Allt í góðu með það. Ég mundi þó telja æskilegt að hlutir eins og Hæstiréttur væru í stjórnarskrá og einhver grundvallaratriði í kringum það hvernig dómsvaldið á að virka, nánari en þau sem eru þar nú þegar, þau eru ekki mjög ítarleg að mínu mati.

Umboðsmaður Alþingis, eins og hv. þingmaður fer inn á, er ágætisdæmi um stofnun sem hefur vissulega haft mjög jákvæð áhrif á stjórnsýsluna og lagasetningarferlið. Hins vegar á umboðsmaður Alþingis stundum við það vandamál að stríða að geta ekki fjármagnað starfsemi sína með þeim hætti sem hann mundi telja fullnægjandi. Ég hygg að ef þetta væri í stjórnarskrá væri það aldrei neitt atriði. Eins og kemur fram í frumvarpinu væri lagaskrifstofa háð fjárveitingum, eðlilega, eins og allar stofnanir. Það væri slæmt ef í framtíðinni færu vond stjórnvöld kannski að reyna að fjársvelta slíka skrifstofu eins og til dæmis vond stjórnvöld gætu fjársvelt umboðsmann Alþingis. Til eru kenningar um að það sé stundum markvisst gert til að draga úr virkni stofnana. Ef kveðið væri á um lagaskrifstofu í stjórnarskrá í formi Lögréttu væri það einfaldlega ekki hægt vegna þess að lögin þyrftu að fara í gegnum þetta ferli til þess að verða að lögum, alla vega ef kallað yrði eftir því, ef farið yrði eftir þeirri forskrift sem birtist í 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs.

Ég hygg að við hv. þingmaður verðum sennilega ekki sammála um þetta í þessari umræðu en mér finnst ágætt að halda þessu til haga og mér finnst mjög fínt að hér sé umræða um hlutverk stjórnarskrárinnar í lagasetningarferlinu, hvort sem við erum sammála um það eða ekki.