145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

hagnaður bankanna og vaxtamunur.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér fannst gæta nokkurrar þversagnar í spurningu hv. þingmanns því að sá ofsagróði sem hv. þingmaður kallar svo, og má alveg nota það orð um hagnað bankanna undanfarin ár, er ekki hvað síst til kominn vegna þess hvernig staðið var að stofnun þessara nýju banka eins og við sem vorum þá í stjórnarandstöðu gagnrýndum mjög, auk þess sem bankarnir voru afhentir kröfuhöfunum, einkavæddir á bak við tjöldin. — Núverandi ríkisstjórn er hins vegar búin að endurheimta bankana að langmestu leyti með þeim afleiðingum að þessir peningar, sem ella hefðu runnið út úr landinu og væntanlega verið fjármagnaðir þá með láni frá Evrópska seðlabankanum, koma í staðinn til ríkissjóðs.

Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur nýverið nefnt þá eru tækifæri í því að draga úr eigin fé bankanna og fá hjá þeim umtalsverðar arðgreiðslur sem nýst geta ríkissjóði í mikilvæg verkefni á sviði innviðauppbyggingar, þó innan þeirra marka sem ég nefndi áðan í umræðu um Hús íslenskra fræða. Þetta fjármagn nýtist núna almenningi í landinu til að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og fer í verkefni sem hafa setið á hakanum eða mátt þola mikinn niðurskurð á síðasta kjörtímabili.

Þessi staða er þrátt fyrir allt fyrst og fremst áminning um hversu gríðarlega mikilvægt það var að ná til baka því klúðri sem staðið var að hér á síðasta kjörtímabili þegar þessir bankar voru afhentir kröfuhöfum; þessi hagnaður hefði allur meira og minna verið að renna til þeirra en rennur nú að langmestu leyti í ríkissjóð.