145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

innleiðing nýrra náttúruverndarlaga.

468. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör. Vegna þess að hún var komin í dálitla tímaklemmu þarna undir lokin langar mig að staldra aðeins við þriðja liðinn. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að Skipulagsstofnun hafi þegar hafið kynningu á þeim breytingum sem ný náttúruverndarlög fela í sér og þá sérstaklega með hliðsjón af skipulagsgerðinni og aðkomu að breyttum verkefnum sveitarfélaganna.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að dýpka svar sitt að því er varðar þá aðila sem standa fyrir utan það sem venjulega er kallað hið opinbera, þ.e. stofnanir ríkisins og sveitarfélaganna. Þá er ég að tala um ört vaxandi fyrirtæki í ferðaþjónustu, ég spyr um ferðafélög sem mörg hver skipuleggja ferðir inn á viðkvæm svæði, jafnvel náttúruverndarsvæði o.s.frv., og svo ekki síst um hvort ekki eigi að standa fyrir kynningu fyrir almenning og þessa rekstraraðila í því millibilsástandi sem stendur yfir núna að því varðar bráðabirgðaákvæði um samspil almannaréttar og vaxandi ferðaþjónustu.

Það er nokkuð sem ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa orðið áskynja. Að minnsta kosti hefur sú sem hér stendur orðið vör við það í töluverðum mæli að veruleg þörf er á því að skýra stöðu almannaréttarins frammi fyrir þessum atvinnurekendum og sérstaklega aðilum á sviði ferðaþjónustu. Þeir þurfa eðlilega að fá skýr svör við því hvar þessi mörk liggja þegar um er að ræða rótgróinn almannarétt annars vegar og hins vegar þá varðstöðu sem við þurfum að sameinast um að standa gagnvart þeirri hættu sem íslensk náttúra kann að standa frammi fyrir þegar ágangurinn eykst svo mikið sem raun ber vitni.