145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

innleiðing nýrra náttúruverndarlaga.

468. mál
[16:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir. Það eru sannarlega réttmætar og góðar ábendingar sem þingmaðurinn kom með. Ég er hér með veigamikið plagg þar sem er sundurliðun frá okkur á því sem við erum að vinna að varðandi hvern og einn lið. Eins og sést á því, þetta eru einar átta blaðsíður, leggja þessi lög vissulega okkur margar skyldur á herðar og auðvitað er það ekki síst það sem þingmaðurinn kom inn á varðandi ört vaxandi ferðamannastraum til landsins. Það líður ekki sá dagur að maður finni ekki fyrir nýrri áskorun í þeim efnum. Sannarlega viljum við reyna að standa okkur í því að vera búin að skoða þau mál öll sömul.

Hér erum við með kaflann Almannaréttur í IV. kafla, um stýringu ferðaþjónustunnar og bráðabirgðaákvæði. Þar er ákveðið að reyna að leggja fram frumvarp nú á haustþingi um hvernig við gerum það, þannig að í því er verið að vinna og eins frumvarp um ný ákvæði sem taka til skýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum almannaréttar til að skýra það betur.

Varðandi það sem þingmaðurinn kom inn á um frekari kynningu er það alveg rétt, ég hljóp svolítið hratt á því að hverju fagstofnanir væru að vinna, en sannarlega viljum við reyna að kynna það sem allra best og sem víðast og kalla inn ferðaþjónustuaðila og aðra því að það er rétt að þessi réttur verður — við verðum að láta náttúruna njóta vafans og hafa það alveg skýrt varðandi þjónustu sem og okkur sjálf, því að allt byrjar nú á okkur sjálfum.