145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

mjólkurfræði.

40. mál
[19:46]
Horfa

Flm. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um eflingu náms í mjólkurfræði. Það er í annað sinn sem ég legg málið fram, en að þessu sinni eru fimm meðflutningsmenn að þingsályktunartillögunni. Ég hef nú beðið í næstum því eitt og hálft ár eftir því að fá að endurflytja málið þar sem þingslit voru í millitíðinni.

Í greinargerðinni má lesa um tilgang þingsályktunartillögunnar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega í hann nú, en í grunninn er gert ráð fyrir gagngerri endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði.

Á síðasta þingi náði málið að ganga til nefndar þar sem það komst í umsagnarferli. Í umsagnarferlinu bárust umsagnir frá meðal annars Landssambandi kúabænda, Mjólkurfræðingafélagi Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, sem voru jákvæðar og gáfu góða mynd af stöðunni og hvað kanna þyrfti í þessu máli. Í greinargerðinni er minnst á þá bið sem nemendur þurfa að þola. Einnig kemur fram í umsögnum sem bárust við meðferð málsins á síðasta þingi nauðsyn þess að þingsályktunartillagan fái afgreiðslu til þess að sé hægt að skoða þessi mál betur og út frá ýmsum þáttum sem fram komu í umsögnum.

Um ári eftir að ég lagði málið fyrir fyrst barst mér til eyrna að orðið hefði töf á skipun í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Hún hefði því verið í rauninni umboðslaus síðan í febrúar 2015, þ.e. milli framlagninga þingsályktunartillögu minnar um eflingu náms í mjólkurfræði.

Ég átti orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um skipunartíma og í rauninni skipun í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins þar sem hæstv. ráðherra ítrekaði við mig að þótt skipunartíminn hefði verið útrunninn hefði verið leitað eftir tilnefningum í nefndina og að hún yrði skipuð um leið og tilnefningar mundu berast.

Svo kom í ljós fyrir nokkru síðan, í byrjun þessa árs, að framhaldsskólalögunum hefði verið breytt 2008. Í þeim var ekki að finna þá stoð sem var í fyrri lögum frá 1996 um nám í mjólkurfræðum. Ég vona að það hafi þá verið leiðrétt núna til þess að hægt sé að klára skipun í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Ég efast ekki um að þó svo að þingsályktunartillagan hefði í raun komist lengra í fyrri umfjöllun hefði þetta einnig komið fram.

Þá tel ég einnig mikilvægt að við fáum upplýsingar frá ráðuneytinu um þá vinnu sem fara átti í í sambandi við fyrirkomulag gagnvart námi í Danmörku þar sem innheimtu skólagjalda var breytt fyrir þremur árum og beindust þau eingöngu að erlendum námsmönnum í Danmörku. Hér vísa ég til þess að námið í mjólkurfræði hefur oftast verið í gegnum Danmörku. Hæstv. ráðherra hafði minnst á að skoða þyrfti þessa tilhögun og reyna að finna einhverja leið með samstarfi við Danmörku og stjórnvöld þar um að koma íslenskum námsmönnum til hjálpar sem vildu stunda nám þar í landi.

Ég legg því þingsályktunartillöguna aftur fram til þingsins ásamt hv. meðflutningsmönnum mínum; hv. þingmönnum Elínu Hirst, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur og Elsu Láru Arnardóttur.