145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

arðgreiðslur tryggingafélaganna.

[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er mörgum spurningum beint til mín í tilefni af fréttum um tillögur stjórna vátryggingafélaganna um arðgreiðslur. Ég skal reyna að bregðast við þeim eins og ég best get. Mér finnst samt mikilvægt að segja fyrst þetta: Tryggingafélögin eru undir sömu sök seld og önnur atvinnustarfsemi á landinu þegar kemur að því að taka þátt í því með okkur, þinginu, vinnumarkaðnum í heild sinni, sveitarfélögunum, ríkisvaldinu, að endurheimta traust sem rofnaði hér á árunum 2008 og 2009 vegna hruns á fjármálamarkaði. Maður kallar einfaldlega eftir því að tillögur sem þaðan berast um rekstraráform, um það hvernig ráðstöfun hagnaðar eða eigna fer fram, séu í eðlilegum takti við það ákall sem við vitum að er enn í samfélaginu eftir þá atburði sem eru nýskeðir. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni að það hlýtur að hljóma illa í eyrum allra landsmanna að menn boði iðgjaldahækkanir en ætli á sama tíma að taka út arð sem er langt umfram hagnað síðastliðins árs. Þetta er fyrir mig eiginlega óskiljanlegt. En menn sitja þá bara uppi með skömmina af því.

Eftir því sem ég kemst næst, á grundvelli þeirra laga og reglna sem um þetta gilda og eftir samskipti ráðuneytisins við Fjármálaeftirlitið og eftir að hafa lesið yfirlýsingar Fjármálaeftirlitsins, eru í sjálfu sér ekki til staðar neinar lagaheimildir til að grípa inn í tillögur um arðgreiðslur. Ég held við þurfum líka að gæta þess að gera greinarmun á því þegar menn taka út (Forseti hringir.) arð sem er langt umfram hagnað og öðrum (Forseti hringir.) tilvikum þegar menn ráðstafa hagnaði síðasta árs. Ég skal koma að því í síðara svari mínu hvaða ráðstafanir við erum nýbúin að gera til þess að treysta (Forseti hringir.) langtímahagsmuni vátryggingataka.