145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

arðgreiðslur tryggingafélaganna.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu eru fjölbreytt ákvæði sem ætlað er að tryggja langtímahagsmuni vátryggingataka og lúta sérstaklega að því að styrkja gjaldþol vátryggingafélaganna í landinu og auka eftirlit með starfsemi þeirra. Í þessari umræðu held ég að maður verði að gjalda varhuga við því sem hv. þingmaður sagði hér, að verið sé að hola félögin að innan vegna þess að í því liggur að það standi þá ekkert eftir nema skelin ein. Ég held að það sé of sterkt til orða tekið.

Eftir því sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið út nú þegar þá eru vátryggingafélögin þrátt fyrir arðgreiðslurnar fjárhagslega sterkar stofnanir sem standa vel undir þeim skuldbindingum sem þær hafa tekið á sig. Það breytir því ekki að okkur er misboðið þegar menn ganga svona fram gagnvart neytendum og sérstaklega er það þannig þegar um er að ræða lögboðnar tryggingar, tryggingar sem við ákveðum með lögum að fólk þurfi að taka. (Forseti hringir.) Auðvitað setur það málið í sérstakt ljós.

Varðandi eignarhlut ríkisins þá er hann nýtilkominn í einu tryggingafélaganna, í Sjóvá. (Forseti hringir.) Ég þarf að glöggva mig betur á því hvernig farið verður með atkvæðisrétt ríkisins þar, þar sem við erum jú að afgreiða lög um það hvar þeim eignarhlut verður komið fyrir.