145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú sjáum við þess uggvænleg merki í samfélagi okkar að óminnisdansinn um gullkálfinn sé hafinn af fullum krafti. Það er engu líkara en að árið 2007 sé að ganga í garð á ný. Í stjórnmálunum sjáum við kunnugleg sjúkleikamerki; það er skeytingarleysi gagnvart þeim sem höllum fæti standa, gagnvart fátæktinni sem ryður sér til rúms í samfélagi okkar, ekki bara veraldleg fátækt heldur líka andleg og samfélagsleg. Einkavæðing og markaðslausnir eiga að leysa hvers manns vanda, viðskiptafrelsið skal í hávegum haft en velferð almennings, nærgætni og umhyggja gagnvart manneskjunni eru lítils metin. Borgun er seld bak við tjöldin útvöldum hópi og ríkið verður af milljarðatekjum. Tryggingafélögin láta greipar sópa um bótasjóðina, sjóði sem orðið hafa til vegna iðgjalda vátryggingartaka sem tryggingafélögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum. 8,5 milljarða á nú að taka og stinga í eigin vasa, mun hærri upphæð en nemur hagnaði fyrirtækjanna.

Hvernig má það vera að fyrirtæki sem er rekið fyrir fé almennings — því að það eru tryggingafélögin — skuli komast upp með annað eins án þess að stjórnvöld grípi til sinna ráða? Fjármálaeftirlitið hefur heimildir að lögum til að grípa inn í. Það getur til dæmis skipað félögunum að endurgreiða tryggingartökum eign þeirra í bótasjóðum eða nota féð til að lækka iðgjöldin.

Virðulegi forseti. Það er mál að linni. Það er nóg komið af því að íslenskur almenningur sé misnotaður svona og hafður ítrekað að féþúfu fjárglæframanna. Stjórnvöld verða að grípa til (Forseti hringir.) sinna ráða til að stöðva þessa óvissu. (Forseti hringir.) Það hafa verið sett lög á Íslandi af minna tilefni.


Efnisorð er vísa í ræðuna