145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[11:40]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir skjót viðbrögð og vinnubrögð í þessu máli. Það var lagt fram á síðasta þingi og var þá eðlilega tilbúið til afgreiðslu en lenti fyrir ofan garð og neðan í atkvæðagreiðsluhavaríinu þá, sem er svo sem allt í lagi, en mér er svo minnisstætt þegar við hittumst í fyrsta skipti, talsmenn barna á Alþingi, og ræddum einmitt um þessi mál. Þá kviknaði þessi hugmynd hjá mér og var tekið vel undir hana hjá hinum, að gera þennan dag, 20. nóvember, að degi mannréttinda í skólum landsins þar sem börn gerðu barnasáttmálanum hærra undir höfði, þó að það sé mín staðfasta skoðun að þetta eigi að vera til umræðu á hverjum einasta degi í skólum landsins, samtvinnað inn í allt annað nám.

En þetta er góð byrjun og skref í þá átt að kynna þennan merkilega, einn mikilvægasta og merkilegasta sáttmála sem gerður hefur verið í mannkynssögunni að mínum dómi. Þrátt fyrir að öll störf og allar manneskjur í þjóðfélaginu séu mikilvægar held ég að börn séu mikilvægasti hópur hvers samfélags vegna þess að þau munu erfa landið. Við eigum ekki að láta neins ófreistað til að ala þau upp í nánum tengslum við réttindi sín, og eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að þekkja muninn á forréttindum og réttindum. Það er svolítill misbrestur á því en er svona liður í því að kenna þeim að takast á við lífið og byggja upp gott samfélag. Eins og við vitum snýst menntun um það fyrst og fremst. Stóra spurningin er náttúrlega hvort við viljum að börnin okkar verði góð eða fróð. Auðvitað viljum við að þau verði það bæði.

En þetta er liður í að börn átti sig á skyldum sínum og réttindum og geti komið með það í samfélagið og miðlað út um allt. Eitt af því sem var sagt þegar þessi samningur var lögfestur var að kynna ætti hann mjög víða og vel í samfélaginu svo að allir áttuðu sig á honum, ekki bara börn heldur líka fullorðnir sem oft kemur fyrir að virðast ekki vita nákvæmlega hver réttindin og skyldurnar eru. Ég fagna þessu mjög og tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, framsögumanni málsins, að málið verði samþykkt þannig að næsti 20. nóvember verði fyrsti dagurinn þar sem barnasáttmálanum verði gert hátt undir höfði og verði fyrsta skrefið eða liður í að efla þessa fræðslu.