145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:51]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir svarið.

Ég ætla í seinna andsvari að koma að þeim fjölmörgu gagnlegu ábendingum sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni.

Í fyrsta lagi nefndi hv. þingmaður bráðabirgðaákvæðið um endurskoðun laganna innan sjö ára. Í öðru lagi að leyfi sem ráðherra heimilar sé 15 ár. Það er hárrétt, en ég ítreka að þetta er nánast þýðing á dönsku lögunum eins og þeir fara upphaflega af stað. Þá var miðað við þennan sjö ára tíma og sjá svo til hvernig gengi með þá starfsemi.

Síðan er verið að horfa á 15 árin. Þetta kallar á mikla fjárfestingu, háan fastan kostnað, eins og er einkenni oft og tíðum á svona starfsemi sem snýr að ferðaþjónustu eða annarri slíkri starfsemi. Það er hár fastur kostnaður í fjárfestingunni og það þarf að horfa til lengri tíma.

Varðandi rekstrarformið er ég algjörlega sammála. Ég gæti vel séð fyrir mér, af því að Alþingi hefur farið þá leið að heimila á grundvelli sérlaga ýmiss konar spilastarfsemi, að ágóðinn rynni út frá því sjónarmiði til góðgerðarmála. Ég get alveg séð fyrir mér samvinnu þeirra aðila sem eru þegar á þessum markaði undir einu þaki og við lokuðum til dæmis þeim stöðum þar sem söfnunarkassar eru og ekkert eftirlit, eða alla vega reyndum að tryggja betri umgengni og eftirlit þar sem þetta er (Forseti hringir.) úti um allan bæ og víða til vandræða að mér er sagt.