145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

261. mál
[15:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta mál; það kemur frá þingflokki Samfylkingarinnar, sýnist mér. Ég get ljóstrað því upp að mikill áhugi er á þessum málum í þingflokki Bjartrar framtíðar. Þar ríkir mikill stuðningur við þau áform sem sett eru fram í frumvarpinu um að lengja tíma fæðingarorlofs og hækka þak greiðslnanna.

Ég held að Fæðingarorlofssjóður sé kominn á mjög hættulegan stað. Við sjáum það í tölunum sem birtust nýverið að fólk, ekki síst feður, er hætt að taka fæðingarorlof, það er einfaldlega farið að veigra sér við því vegna þess að greiðslurnar eru of lágar. Það er einfaldlega mjög slæmt. Það er mjög slæmt fyrir börn vegna þess að það má ekki gleyma því grundvallarmarkmiði Fæðingarorlofssjóðs að stuðla að því að börn geti notið mikilvægra óskiptra samvista við báða foreldra sína á mjög mikilvægu mótunarskeiði lífs síns, og því miður er að grafast undan því markmiði.

Ef feður veigra sér við að taka fæðingarorlof vegna þess að greiðslurnar eru of lágar grefst líka undan þessu mikilvæga kynjajafnréttismarkmiði fæðingarorlofslaganna, sem er að stuðla að því að vinnumarkaðurinn fái þau ótvíræðu skilaboð að foreldrar barns eru yfirleitt tveir, kannski með einni undantekningu, og það eru faðir og móðir. Þessir foreldrar eiga báðir að vera virkir uppalendur og vinnumarkaðurinn á að líta á báða sem foreldra sem verða frá vinnu vegna fæðingar. Þetta er líka jafnréttismál.

Ég tel að í því hvernig komið er fyrir Fæðingarorlofssjóði núna birtist mjög gott og kristaltært dæmi um það hve miklu máli skiptir hverjir stjórna. Það þurfti að skera niður í framlögum til Fæðingarorlofssjóðs, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, strax eftir hrun. Það var gert, eins og segir í greinargerðinni, með tímabundinni ráðstöfun, ráðstöfun sem ég og fjórir aðrir þingmenn á þeim tíma vorum á móti. Ég er þeirrar skoðunar að tryggja eigi Fæðingarorlofssjóði þann tekjustofn í tryggingagjaldi og hafa hann þannig að hann sé óbreyttur, burt séð frá því hvort það er kreppa eða góðæri og að Fæðingarorlofssjóður sé einfaldlega fjármagnaður með þessu hlutfalli af tryggingagjaldi og safni þá peningum í góðæri sem hann geti nýtt til að greiða út í kreppu þegar verr árar. Við eigum ekkert að vera að hrófla við þessu og ég tel að við eigum að gera samkomulag við aðila á vinnumarkaði, stjórnvöld og sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins, um að hlutfallið af tryggingagjaldi sem rennur í Fæðingarorlofssjóð sé einfaldlega viðunandi og tryggi almennilegt fæðingarorlof. Það er mín skoðun. Ég viðraði þessar skoðanir þegar fyrst var skorið niður til Fæðingarorlofssjóðs strax eftir hrun 2009. Ég taldi að það ætti að hafa nógu hátt hlutfall af tryggingagjaldi til að fjármagna sjóðinn á þeim tíma og að ekki hafi verið nauðsynlegt að skera niður í hann.

Gott og vel. Það voru vissulega röksemdir fyrir því að skera niður af augljósum ástæðum. Gríðarlegur halli blasti við í ríkisrekstrinum og ótrúleg aukning á atvinnuleysi og atvinnuleysisbætur eru fjármagnaðar af tryggingagjaldi, þannig að auðvitað hafði það áhrif á svigrúmið. Engu að síður var það tímabundin ráðstöfun og hún var erfið. Það má segja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur það til hróss að hún tók það alvarlega að þetta var tímabundin ráðstöfun. Það fór hér í gegn frumvarp undir lok síðasta kjörtímabils þar sem stóð til að leiðrétta þetta allt saman og lengja fæðingarorlofið í áföngum og það var samþykkt hér eftir mikla umræðu.

Í afdrifum þess máls og í því hvernig komið er fyrir Fæðingarorlofssjóði núna birtist kristaltært dæmi um að það er mikilvægt að hugleiða hverjir stjórna og að menn hafast misjafnt að í pólitík. Í pólitík er mjög mikilvægt að ræða pólitík, held ég.

Hvað gerði ríkisstjórnin þegar hún tók við? Hún gerði margt mjög skrýtið. Hún hætti til dæmis við fjárfestingaráætlun sem hefði verið mjög gott að hafa ráðist í. Hún bakkaði með þessar breytingar á Fæðingarorlofssjóði. Hún bakkaði með þær. Hún ákvað að hætta við þessa lengingu og hækkaði reyndar þakið á hámarksgreiðslunum um 20 þús. kall en hætti við lenginguna. Þá mætti spyrja sig hvort ríkisstjórnin hefði þá ákveðið að nota þann sparnað sem í því fólst að hætta við lenginguna til að lækka tryggingagjaldið á móti? Nei, það gerði ríkisstjórnin ekki. Þarna sköpuðust, með því að hætta við lenginguna, með því að draga saman í framlögum til Fæðingarorlofssjóðs, allt upp undir 10 milljarða svigrúm í tryggingagjaldinu. Ég held ég fari rétt með í því, ég er með þessar tölur í hausnum.

Í hvað notaði ríkisstjórnin þá peninga? Ríkisstjórnin lækkaði á sama tíma alls konar skatta. Auðlindagjald var lækkað umtalsvert, hún kom með mjög þýðingarlitla lækkun á milliþrepinu í tekjuskatti sem kostaði 5 milljarða, lækkaði álögur á ferðaþjónustu á byrjunarreit á miklum uppgangstímum í þeim geira — það hefði nú verið gott að hafa þá peninga — kynnti áform sín um að leggja af auðlegðarskatt sem sumpart er umdeilanlegur skattur sem hefði vel verið hægt að hafa áfram, lækkaði sykurskatt. Ríkisstjórnin tók peninga af barnafólki, tók peninga af fólki sem er að eignast barn í þessu landi, sem er ákaflega mikilvægt verkefni, og færði auðmönnum beinlínis þessa peninga. Ríkisstjórnin hefði vel getað haldið þessum áformum um að lengja orlofið, hækka gjaldið og sleppt því til dæmis að lækka auðlindagjald. Hún hefði getað sleppt því að lækka milliþrepið í tekjuskattinum. Hún hefði getað sleppt því að leggja auðlegðarskattinn af. Hún hefði líka getað sleppt því að fara í mjög umdeilanlegar skuldaleiðréttingar sem gögnuðust einna best ríkasta fólki þessa lands. Það er því ýmislegt sem ríkisstjórnin hefði getað gert til að halda áfram og halda til streitu áformum um að lengja fæðingarorlofið og hefði getað farið í það að hækka þakið. En ríkisstjórnin kaus að gera það ekki heldur lagði lykkju á leið sína til að hætta við áform sem þingið hafði samþykkt. Þetta lýsir bara pólitík. Þetta lýsir bara því hvaða áherslur fólk er með. Fólk sem situr í ríkisstjórnarmeirihlutanum getur ekkert komið upp og sagt að það beri hag Fæðingarorlofssjóðs sérstaklega fyrir brjósti. Það getur ekkert sagt það vegna þess að þetta var það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði. Þannig að svona er þetta nú bara.

Málið er í nefnd. Ég er orðinn mjög langeygur eftir því að sjá þá niðurstöðu. Mér finnst þörfin vera augljós. Það þarf að lengja fæðingarorlofið, það þarf að hækka þakið. Ég skil ekki hvað þarf að sitja á mörgum nefndarfundum í viðbót til þess að komast að þeirri niðurstöðu.

Svo segi ég líka, og vil ítreka þá skoðun mína, að mér finnst að það eigi einfaldlega að efna til samtals hins opinbera, sveitarfélaga, ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitenda og samtaka launafólks, um að tryggja Fæðingarorlofssjóði til allrar framtíðar viðunandi hlutfall af þessum gjaldstofni sem er tryggingagjald og hugsa svo ekki meira um það. Við skulum hafa í huga að einhvers staðar lendir þessi kostnaður; fólk eignast blessunarlega börn. Það var annað sem gerðist í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta við að láta tryggingagjaldið renna í Fæðingarorlofssjóð, þetta verkefni fór bara til sveitarfélaganna í dagmæðrakerfið. Það fer alltaf þangað þegar þessi leikur er spilaður, að velta svona kostnaði við mikilvæg samfélagsleg málefni yfir á sveitarfélögin. Það var gert í þessu máli.

Það er ærið tilefni til að efna til þessa samráðs, komast að viðunandi prósentuhlutfalli af tryggingagjaldinu, láta það renna í Fæðingarorlofssjóð, láta Fæðingarorlofssjóð brúa bilið til leikskólans og hugsa einfaldlega ekkert um það meira, hafa þessi mál bara í almennilegu lagi.