145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

innflutningur nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

78. mál
[17:44]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn sem flytur þessa tillögu hvort hún hafi kynnt sér það sem kom fram á forsíðu Bændablaðsins 11. febrúar síðastliðinn, þ.e. að íslensk mjaltaþjónabú settu nýtt heimsmet árið 2015. Innvigtun mjólkur fór úr 31,1% 2013 — sem er árið sem margt í greinargerð þingsályktunartillögunnar vísar í og eru að ég tel úreltar tölur í dag — í 37,2% fyrir síðasta ár.

Ég spyr einnig hvort þingmaðurinn hafi kynnt sér niðurstöður skoðanakönnunar sem Landssamband kúabænda gerði og íslenskir kúabændur svöruðu. Þar var meðal annars spurt: Hvernig telur þú helst koma til greina að hraða erfðaframförum í íslenska kúastofninum? En nærri 60% íslenskra kúabænda, 59,6%, svöruðu: Með því að nýta allar færar leiðir við framræktun íslenska stofnsins án nokkurrar innblöndunar. Ég tel þetta vera mjög skýrt frá íslenskum kúabændum.

Þingmaðurinn talaði einnig í framsögu sinni um að neytendur hefðu breytt neyslu sinni. En á sama tíma breyttu bændur framleiðslu sinni því að það var gefið út að bændur fengju borgað fullt verð fyrir alla innlagða mjólk. Bændur fóru í að gefa meira kjarnfóður og auka nyt á kúabúum og það sýndi sig svo sannarlega þar sem innlend framleiðsla á síðasta ári var metframleiðsla. Það hefur aldrei verið lögð svo mikil mjólk inn áður. Þetta voru 146 millj. lítra eða 12,5 millj. lítra meira en ári áður. Burðum fjölgaði einnig. Ég tel óeðlilegt að tillagan segi til um meðferð málsins, þ.e. hér er vísað til leiðar sem var hafnað þegar innflutningur um sæði holdanauta var til umræðu.

Mig langar bara að fá álit þingmannsins á þessum punktum.