145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

fyrirspurnir á dagskrá.

[15:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við hljótum öll að fagna því að það saxast á fyrirspurnalistann sem hefur verið langur. Það er hárrétt hjá forseta að það eru nokkrir til svara hérna núna. Listinn styttist en hann hefur samt sem áður verið mjög langur og gengið erfiðlega að fá fyrirspurnum svarað, sérstaklega hefur forsætisráðherra verið mjög seinn að svara öllum fyrirspurnum sem til hans hafa borist.

Ég vil líka taka undir það með hv. þingmönnum sem töluðu á undan að það er alveg óskiljanlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki svara þeim spurningum um Borgun sem voru sendar til hans síðustu dagana í janúar. Nú erum við komin fram í miðjan mars og engin svör hafa borist. Það er ljóst að næsti fyrirspurnatími verður ekki fyrr en í apríl. Frestur Landsbankans til að svara Bankasýslunni rennur út í lok þessa mánaðar, en ráðherrann ætlar bara að sitja hjá (Forseti hringir.) og ætlar ekki upplýsa þingið um þessi mikilvægu mál. Það er óskiljanlegt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna