145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

sáttamiðlun í sakamálum.

503. mál
[16:15]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp þar sem þessi leið, sáttamiðlun í sakamálum, hefur verið til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd. Það mál hefur komið inn á borð þar. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson fór yfir eru til mál þar sem fólk er oft að leita eftir ákveðinni sátt, fyrirgefningu eða bara viðurkenningu á ákveðnum þáttum fremur en refsingu gagnvart hinum aðilanum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er um að ræða einstaklinga á aldrinum 15–21 árs. Þó að lögin geri ráð fyrir fullhörðnuðum einstaklingum á því aldursbili er ekki alltaf svo. Þessi leið gæti því virkað sem ákveðið inngrip eða forvörn fyrir þennan aldurshóp og þó svo að í dag sé aðeins um að ræða um 40 mál á ári og 80% þeirra fá góða úrlausn gætum við hugsað sem svo: Hvað þá þegar málin verða 100 eða 200 og þessi leið er notuð? Ég tel því vert að skoða þessa leið.