145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar góðu ábendingar og mun hafa þær í púkkinu. Fyrst aðeins varðandi Kanada. Það er alveg rétt að við Íslendingar eigum að vera útvörður Norðurlandanna gagnvart Kanada og treysta tengslin þangað. Það væri gríðarlega gott og mikilvægt fyrir okkar ágæta land að við gætum komið því þannig fyrir að Ísland væri sterkari milliliður í flugsamgöngum þangað.

Varðandi Akureyri sem einhvers konar flughöfn þá hef ég ásamt fleirum verið að berjast fyrir því að flughlaðið verði stækkað. Ég nefni það vegna þess að það er hluti af þeim nauðsynlegu innviðum sem þurfa að vera fyrir hendi. Norlandair hefur til dæmis talað fyrir því að byggja upp og stækka. Ef flughlaðið verður að veruleika fyrr en seinna þá sé ég ýmsa möguleika. Það er kannski grunnástæðan fyrir því að ég tel mjög mikilvægt að við nýtum það efni sem kemur úr Vaðlaheiðargöngunum til að byggja þarna. Svo þegar við fáum samgönguáætlun fyrr en seinna í samgöngunefnd þá verður þetta allt á áætlun.

Varðandi austurströnd Grænlands tek ég bara undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að Ísland verður alltaf útvörðurinn gagnvart Grænlandi. Það er rétt.

Að lokum mun ég hugsa þetta með miðleiðina. Ég hafði séð það fyrir mér að ýmislegt væri fólgið í því að ísleiðin mundi opnast eða norðurheimskautsleiðin hvaða leið sem yrði farin, vegna þess að Ísland er mjög vel (Forseti hringir.) staðsett á milli Ameríku og Evrópu. Ég sá það ekki fyrir mér að það skipti öllu máli, en ég hlusta að sjálfsögðu eins og alltaf á minn ágæta vin hv. þm. Össur Skarphéðinsson.