145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Smjörklípa forsætisráðherra í heilbrigðismálum er sorgleg. Það er alvarleg staða í heilbrigðiskerfi okkar. Þar er víða skortur. Kallað er eftir úrbótum. Tugir þúsunda Íslendinga skrifa undir áskorun á ríkisstjórnina um að bæta hér úr. Og hvað gerir forsætisráðherra? Jú, hann ákveður að láta fólk fara að rífast um hvar eigi að byggja hús.

Hvert er elsta trikkið í bókinni í stjórnmálum á Íslandi? Það er að Íslendingar eru alltaf til í að rífast um hvar eigi að byggja eitthvert hús. Umræða um það mun alltaf yfirskyggja efnisumræðu um mál.

Virðulegur forseti. Ég hvet fólk til þess að láta ekki beina sjónum sínum frá þeim brýnu verkefnum sem blasa við í heilbrigðiskerfinu, þeirri miklu kostnaðarþátttöku sem lögð er á sjúklinga, þeirri vondu aðstöðu sem Landspítalinn býr við að mörgu leyti um húsnæði og aðra aðstöðu, þeim skorti sem er til að mynda í geðheilbrigðisþjónustu við börn og mörgum öðrum mikilvægum þáttum í heilbrigðiskerfi okkar, þeim skorti sem er á fjármunum í heilbrigðiskerfi okkar.

Ég hvet fólk til þess að láta ekki plata sig, að láta ekki forsætisráðherra komast upp með að skipta þjóðinni í hópa með og á móti því hvar eitthvert hús eigi að rísa, vegna þess að það, virðulegur forseti, er alltaf á endanum aukaatriði. Það sem skiptir máli er það sem fram fer inni í húsinu, að þjónustan þar sé viðunandi, að fjármunirnir sem við verjum til heilbrigðismála séu nægilegir og að sjúklingar séu ekki að kikna undan gjöldum í heilbrigðisþjónustunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)


Efnisorð er vísa í ræðuna