145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

orð utanríkisráðherra um hagsmuni þingmanns.

[10:33]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og tel að þessi ummæli hæstv. utanríkisráðherra séu ámælisverð og verðskuldi afsökunarbeiðni. Að draga inn í umræðuna einhverja meinta fjölskylduhagsmuni af því þegar gamall sjómaður selur smábát eftir 50 ára langan starfsferil til að ljúka langri ævi og eiga eitthvað í ellinni, að draga það upp til að bera það saman við milljarðafjárhagshagsmuni eiginkonu hæstv. forsætisráðherra, sem hún geymir í yfirlýstu skattaskjóli á Tortólu, að líkja þessu tvennu saman er svo óþverralegt og ómerkilegt að ég minnist þess ekki að hafa heyrt annan eins samanburð í þinginu.

Auðvitað á hæstv. utanríkisráðherra að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum og það er (Forseti hringir.) ömurlegt þegar menn beita aðferðum sem þessum í opinberri umræðu í þinginu, (Forseti hringir.) að sverta heiðarlegt fólk lífs og látið með þessum hætti.