145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer kannski betur yfir þau atriði er varða skipan dómara í ræðu á eftir. En varðandi endurupptökunefndina sérstaklega þá velti ég fyrir mér: Er ekki í sjálfu sér lag til þess að tilgreina hana ekki sem sjálfstæða og óháða úrskurðar- og stjórnsýslunefnd heldur sem endurupptökudómstól og í henni sitji einfaldlega þrír dómarar, einn héraðsdómari, einn landsdómari og einn hæstaréttardómari og hún kveði bara upp úrskurð sem bindi þá öll dómstig um endurupptöku mála? Áhyggjuefnið sem ég sé við þetta upplegg núna er að mér finnst ekki alveg skýrt af lagatextanum að hann mæti áskilnaði Hæstaréttar um að það þurfi atbeina dómsvaldsins til endurupptöku dóma sem kveðnir hafa verið upp. Þar af leiðandi getum við verið að búa til viðvarandi réttaróvissu og kannski bara aukahindrun í vegi þeirra sem leita endurupptöku í staðinn fyrir að greiða leið endurupptökunnar eins og ætlunin var auðvitað með endurupptökunefndinni í upphafi. Ég velti því aðeins upp hvort sú leið hafi verið könnuð í ráðuneytinu að gera endurupptökunefndina einfaldlega að endurupptökudómstól með þeim hætti að í henni gætu verið dómarar, þeir gætu þess vegna verið róterandi dómarar af þessum þremur dómstigum, og hefðu þar af leiðandi umboð sem dómarar til þess að kveða upp dóm um endurupptöku.