145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:29]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni er einmitt mjög lítill fjárhagslegur ávinningur sjáanlegur af þessum breytingum og sannarlega ekki það mikill að hann réttlæti það að setja allan málaflokkinn í uppnám þess vegna.

Fjárhagslegi ávinningurinn er nánast enginn. Breytingarnar draga úr gildi og stöðu höfuðsafns í minjavörslu og minjarannsóknum á Íslandi. Þær rugla starfsumhverfið og eru í raun og veru þvert gegn hinu yfirlýsta markmiði að auka skilvirkni og virðisauka, eins og það er orðað. Það er ekki hægt að sjá það þegar maður fer svo að hugsa þetta rökrétt, að þau markmið náist með nokkrum hætti í gegnum þær breytingar sem hér hefur verið lýst.

Þetta er fljótfærnislegt og ber þess merki að persónulegur metnaður forsætisráðherra og löngun hans til þess að láta að sér kveða og reisa sér bautasteina sem tengjast minjavörslu og safnamálum á Íslandi af því að hann er áhugasamur um þau mál. Hann virðist vera að reyna að reisa sér bautastein með þessu frumvarpi, en það er bara hrákasmíð, því miður. Það stendur ekki á traustum undirstöðum og mun ekki leiða neitt gott af sér að óbreyttu.

Það er hugsanlegt að hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd geti lagt þessu máli eitthvað gott til í nefndinni en ég er þó efins um það. Mér sýnist að það þurfi þá bara að byrja algjörlega á byrjuninni.