145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í rauninni alveg eðlilegt að gert sé ráð fyrir einhverjum útgjöldum fyrst eftir sameiningu, sérstaklega ef tekið er fram að ekki eigi að fækka starfsfólki. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja en það er samt ástæða til að vera vakandi. Við sjáum sameiningu Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar í Menntamálastofnun. Ég er ekki að segja að það fari ekki ágætlega en miðað við tölur sem ég hef séð munum við ekki sjá neinn fjárhagslegan ávinning af því fyrstu árin eftir sameiningu.

Mér finnst eðlilegt að fjárlaganefnd kalli eftir þeim gögnum sem liggja að baki þessum tölum eða niðurstöðu á bls. 20–22. Á bls. 18 er talað um að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif ef það markmið sem stefnt er að um rekstrarlegt hagræði nái fram að ganga. Það er eins og menn séu að segja það verði örugglega einhver hagræðing af þessu án þess að þeir séu vissir um það eða viti nákvæmlega hvernig eða af hverju hún verður. Það er að vísu talað um að það muni um húsnæði Minjastofnunar en að öðru leyti er það frekar óljóst. Kannski er fjárhagslegur ávinningur ekkert markmið en þá er eðlilegra að segja hreint út að það sé ekki markmið í stað þess að vera að telja það upp sem einn kostinn.

Það var ekkert samráð haft við einn eða neinn í þessu máli, held ég, hvað varðar okkur í þingflokkunum eða okkur alþingismenn. Ég vissi ekki að þetta væri í gangi og var ekkert að fylgjast allt of vel með fyrr en ég fór að heyra og fá tölvupósta og símhringingar frá fólki sem hafði áhyggjur af þessu. Ég verð að segja að það er ekki algengt þegar frumvörp eru til vinnslu að maður fái jafn mikil viðbrögð. (Forseti hringir.) Ég held ég hafi ekki fengið jafn mikil viðbrögð við neinu máli í vetur og þessu.