145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi orðað það þannig að þetta væri hálfsannleikur. Ég held ég hafi líka orðað það þannig að þetta væri tilfinning sem ég fékk þegar ég las frumvarpið yfir. Ég treysti mér nú ekki alveg til að benda á og segja: Þetta er ekki rétt og þetta er ekki rétt. En varðandi forsöguna segir í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta

„Árið 2013 voru samþykkt ný lög um safnastarf og þjóðminjavörslu. Ný stofnun …“

Síðan segir áfram á bls. 10:

„Sama ár tóku einnig gildi sérstök lög um Þjóðminjasafn Íslands þar sem áréttað var hlutverk þess sem höfuðsafns á sviði menningarminja.“

Síðan segir allt í einu:

„Ákvörðun um uppskiptingu verkefna á sviði minjavörslu um síðustu aldamót með tilheyrandi aðskilnaði opinberrar starfsemi og einkareksturs höfðu umtalsverð áhrif á málaflokkinn. Verkaskipting stofnananna varð óljós með klofningi fagumhverfisins …“

En það var um aldamótin. Síðan komu þessi lög 2013. Hverju var breytt þá? Þá var verið að sameina þetta. Maður stendur hugsi og segir: Bíddu nú við, er þetta rétt? Það er sú tilfinning sem ekki er góð. Síðan er talað um Norðurlöndin og sagt:

„Í Noregi eru fornleifarannsóknir á hendi háskólasafna og rannsóknarstofnunarinnar NIKU í umboði embættis þjóðminjavarðar …“

Þarna er gefið í skyn að það sé það sama og verið er að innleiða hér. Síðan las ég upp úr grein eftir doktor í fornleifafræði sem vinnur í Noregi þar sem hún segir: Þar er einmitt lögð rík áhersla á aðskilnað (Forseti hringir.) rannsóknarverkefna og stjórnsýslunnar. Hún talar um samvinnu en ekki (Forseti hringir.) sameiningu, sem er tvennt ólíkt.