145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Forseti. Ef hæstv. forsætisráðherra væri í salnum mundi ég segja honum að gera sömu kröfur til sjálfs síns og hann gerir til annarra. Ég fylgdist með á síðasta kjörtímabili þar sem núverandi stjórnarliðar öskruðu sig hása, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, yfir hinu og þessu sem stjórnvöld þá áttu við. Það vantaði ekkert upp á heilaga vandlætingu í þeim efnum. Nú bregður svo við að stjórnarliðar þegja þunnu hljóði. Ég segi, eins og hefur verið gert fyrr í dag, að ef við mundum snúa þessu við er ég viss um að fólkið sem þegir í dag væri að öskra sig hást. Ég þykist sjá að fólk er vandræðalegt. Ég upplifi ekki að hæstv. forsætisráðherra njóti stuðnings en ég vil biðla til þeirra stjórnarliða sem treysta ekki lengur forsætisráðherra að grípa til aðgerða, því að hæstv. forsætisráðherra hlustar ekki á okkur. (Forseti hringir.) Það hefur hann aldrei gert. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)