145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum aðeins að fara yfir það með hvaða hætti við erum að umgangast þessa hagsmunaskráningu vegna þess að það er algjörlega ljóst að hæstv. forsætisráðherra átti í félagi í tæpt ár eftir að hagsmunaskráningin var tekin upp hér án þess að gera grein fyrir því. Við erum með fleiri dæmi um slíkt og hann skýrir það með þeim hætti að gerð hafi verið einhvers konar mistök og þess vegna hafi nafn hans allt í einu verið bendlað við að eiga helminginn í félagi á Tortólu.

Ég spyr: Hvernig verða slík mistök eiginlega gerð? Ég held að við öll hér inni vitum það að ef maður fer að stofna fyrirtæki eða taka þátt í einhverjum svona gerningum þá þurfi undirskriftir manns einhvern veginn að koma að þessu. Auðvitað vissi hann hvað hann var að gera. Hann tók þátt í því að stofna þetta félag. Öðruvísi hefði hann ekki átt og verið skráður fyrir helmingseignarhlut. Hann sagði okkur að hann hefði valið og ákveðið að gera ekki grein fyrir því í hagsmunaskráningunni.

Við hér inni þurfum að taka sameiginlega ákvörðun um hvernig við ætlum að bregðast við þessu með forseta í broddi fylkingar.