145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég óttast að tækifæri hæstv. forsætisráðherra til að taka á þessu máli af einhverjum manndómi eða lágmarksreisn sé að fjara mjög hratt út og málið versni bara með þeim tilburðum sem hæstv. forsætisráðherra hefur enn sýnt af sér. Það eru örlögin um að vera kominn ofan í holu og geta ekki hætt að moka og dýpka holuna. Er það einhver málsvörn að reyna að segja okkur hinum að Tortóla eða Bresku Jómfrúreyjar séu ekki skattaskjól? Að halda því fram að engin leynd hafi ríkt um það félag, þegar algerlega er ljóst að leyna átti tilvist þess þar til það var komið inn á band hjá fjölmiðlum að það væri til? Þá er loksins sagt frá því. Hæfi forsætisráðherra til að koma nálægt samskiptum við kröfuhafa föllnu bankanna er ekki til staðar þegar hann upphaflega sem kröfuhafi og síðan í öllu falli kona hans á stórkostlegra persónulegra hagsmuna að gæta. Hæstv. forsætisráðherra reyndi í viðtölunum sem sýnd voru í gær að afvegaleiða málið. Það sáu allir. Hæstv. forsætisráðherra eða menn hans, herra forseti, reyndu að koma í veg fyrir birtingu sænska sjónvarpsins á fréttum. (Forseti hringir.) Það eitt og sér fyndist mér alveg nóg til þess að forsætisráðherra (Forseti hringir.) í lýðræðisríki á að fara. Honum er ekki sætt.