145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Úti á Austurvelli er saman kominn jafn mikill fjöldi af fólki og í mótmælunum árið 2009. Það er nauðsynlegt að hlusta á kröfuna sem er úti á Austurvelli. Vilja íslenskir þingmenn að hér verði ekki bara pólitískt neyðarástand heldur neyðarástand sem blasir við heimsbyggðinni út af einhverju sem er mjög auðvelt að leysa? 75 erlendar sjónvarpsstöðvar hafa beðið um að fá að sýna beint frá mótmælunum á Austurvelli núna. 75 erlendar sjónvarpsstöðvar. Álitshnekkir okkar á erlendum vettvangi mun hafa mikil áhrif varðandi trúverðugleika okkar í erlendum viðskiptum. Mikil er ábyrgð þeirra þingmanna sem ætla að styðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson áfram til verka. Ég skora á samvisku allra þeirra þingmanna sem tilheyra stjórnarliðinu að tryggja að þegar vantraust verður lagt fram sem allra fyrst að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson víki. Það er alveg nauðsynlegt fyrir þessa ríkisstjórn að endurnýja umboð sitt fyrir þær sakir að hafa leyft þessu máli að fara þannig úr böndunum að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er enn forsætisráðherra landsins þrátt fyrir mjög skýra og ríka kröfu frá Austurvelli. [Forseti hringir án afláts.] Þetta er fín tónlist hérna undir. Af hverju ætti ég að virða hér þingsköp þegar forsætisráðherra Íslands kemst upp með það með lygum og lýðskrumi að ljúga beint framan í andlit á þjóðinni aftur og aftur og hann sýndi enga iðrun í dag? Mikil má skömm Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vera fyrir hans framburð hér í dag og 11. mars [Forseti hringir án afláts.] þegar hann laug og labbaði út úr viðtali. Síðan hefur hann ekki gert neitt annað en að reyna að gera lítið úr fjölmiðlum þeim sem hafa spurt hann einfaldra spurninga og neitar að mæta í viðtal til RÚV.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður veit það að ræðutímanum er lokið.)

Það er skammarlegt. Það er skammarlegt og megi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gjöra svo vel og drulla sér úr sínum ráðherrastól sem allra fyrst.