145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

eignir ráðherra í skattaskjólum.

[11:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að upplifa fordæmalausa stöðu í íslenskum stjórnmálum. Kastljós umheimsins beinist að Íslandi með öðrum hætti en dæmi eru um í þeirri sögu. Sérstaða Íslands er að hér höfum við forustumenn í stjórnmálum sem hafa átt viðskipti úr skattaskjólum. Það er ekkert annað vestrænt land í sömu stöðu. Forseti Íslands orðaði það vel í yfirlýsingu sem hann gaf um samtöl sín við erlenda fjölmiðla að mikilvægt væri að skapa sátt meðal þjóðarinnar með hag og heiður Íslands að leiðarljósi. Það er þung ábyrgð sem hvílir á forustumönnum ríkisstjórnar við þessar aðstæður og það er synd að segja að menn hafi risið undir henni síðustu daga og vikur.

Vandi hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar er að hann hefur átt viðskipti úr skattaskjóli, alveg óháð því hversu umfangsmikil þau voru, og hann átti þau sem alþingismaður og formaður allsherjarnefndar Alþingis og átti að gera grein fyrir þeim hér á Alþingi. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig getur hann fundið það út að hann sé rétti maðurinn til að leiða vinnuna við að endurreisa heiður Íslands á alþjóðlegum vettvangi og að leiða sáttina sem forsetinn kallaði svo ágætlega eftir?